Father Fishmas á ferðinni

171
Deila:

Herferðin Fishmas á Bretlandi hefur gengið vel. Hún snýst um kynningu á íslenskum sjávarafurðum og hefur hún fengið góða svörun. Á næsta ári mun herferðin færast yfir til Frakklands, en þessi tvö lönd eru mikilvægustu markaðirnir fyrir íslenskan botnfisk. Verkefnið er unnið af fyrirtækjum í sjávarútvegi og Íslandsstofu. Fjallað er um framgang þess á vef Íslandsstofu.

Í lok ágúst var blásið til hátíðar íslenska fisksins í Bretlandi þegar markaðsherferðin Fishmas fór í loftið. Herferðin miðar að því að auka vitund fólks þar í landi um íslenskan fisk. Meginskilaboðin tengjast gæðum og heilnæmi og að fiskistofnar við Ísland séu nýttir á sjálfbæran hátt.

Að baki Fishmas herferðinni stendur markaðsverkefnið Seafood from Iceland en þar undir eru 30 fyrirtæki í veiðum, vinnslu, sölu og þjónustu við sjávarútveginn ásamt Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Íslandsstofu.

Árangur Fishmas herferðarinnar á birtingartímabilinu fór fram úr væntingum. Father Fishmas myndbandið með Agli Ólafssyni fékk góðar viðtökur og hefur verið spilað um sex milljón sinnum. Þá hafa uppskriftamyndbönd þar sem fólk getur lært að elda einfalda en gómsæta fiskrétti jafnframt mælst vel fyrir. Skilgreindur markhópur var kallaður heilsumeðvitaðir foreldrar og skilaboðum var beint markvisst að þeim hópi í gegnum birtingar á samfélagsmiðlum.

Þá  var einnig efnt til samstarfs við 20 breska áhrifavalda á samfélagsmiðlum sem valdir voru með hliðsjón af markhópnum. Þau fengu sendan pakka sem innihélt ferskan þorsk ásamt öllu því hráefni sem tilheyrði til að elda gómsætan fiskirétt eftir uppskrift af vefnum www.fishmas.com. Efni frá þessum áhrifavöldum náði til rúmlega fimm milljón áhorfenda í Bretlandi á þessu tímabili.

Með Seafood from Iceland markaðsverkefninu með Fishmas herferðina í fararbroddi hefur íslenskur sjávarútvegur tekið höndum saman í sameiginlegri markaðssetningu. Ánægja hefur verið í hópi þátttakenda og vilji til að halda áfram þessari vegferð. Á árinu 2021 mun Fishmas herferðin sækja inn á nýjan markað, Frakkland, auk þess sem markaðssókn inn á Bretland verður fylgt eftir.

Það er mikil samkeppni í hinum stóra heimi og með því að standa saman verður aukinn slagkraftur í kynningunni og meiri líkur að ná í gegn með sameiginleg skilaboð um íslenskan sjávarútveg. Allir þurfa að hjálpast að, segja söguna okkar, söguna af íslenska fiskinum sem við erum öll svo stolt af.

 

Deila: