Útflutningur fiskafurða til Kína þarfnast nýrra vottorða

125
Deila:

Yfirvöld í Kína hafa tilkynnt Matvælastofnun að frá og með 1. janúar 2021 verði nýtt heilbrigðisvottorð tekið í notkun fyrir fiskafurðir til Kína. Einnig þarf að votta ýmsar auknar og nýjar kröfur vegna COVID -19 farsóttarinnar. Sömu kröfur hafa verið kynntar fyrir ýmsum öðrum löndum.

Nýtt heilbrigðisvottorð

Matvælastofnun hefur undanfarið haft samráð við kínversk yfirvöld varðandi þessar nýju kröfur og nýja heilbrigðisvottorðið og fengist hafa skýringar á ýmsu sem var óljóst. Í heilbrigðisvottorðinu á að tilgreina öll veiðiskip/vinnsluskip, vinnslustöðvar og sjálfstæðar frystigeymslur svo rekjanleiki afurðanna sé tryggður alla framleiðslu- og flutningslínuna.

  • öll veiðiskip, vinnsluskip, vinnslustöðvar og sjálfstæðar frystigeymslur þurfa að vera skráð á opinberan lista hjá yfirvöldum í Kína
  • allar starfseiningar í framleiðsluferlinu eiga að hafa innleitt aðgerðir til að fyrirbyggja COVID-19 smit á öllum stigum í framleiðslu- og flutningslínunni byggðar á leiðbeiningum Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO)  og Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO).

Ekki má tilgreina starfseiningar í heilbrigðisvottorðinu nema þær hafi birst á opinberum lista kínverskra yfirvalda vegna þess að ekki er heimilt að flytja til Kína afurðir sem unnar eru úr afla skipa sem ekki eru skráð á opinberan lista í Kína.

Matvælastofnun vinnur að skráningu veiðiskipa á opinbera lista í Kína og er í viðræðum um heilbrigðisvottorðin. Útflytjendum mun tilkynnt um nýtt vottorð eins fljótt og unnt er. Allar aðgerðir miða að því að hafa alla þætti er snerta útflutning fiskafurða til Kína tilbúna fyrir 1. janúar næstkomandi.

Sýnataka af innfluttum fiskafurðum í Kína

Yfirvöld í Kína hafa undanfarnar vikur tekið sýni til rannsókna á kórónaveirunni SARS-CoV-2 í fiskafurðum og umbúðum þeirra sem fluttar eru til Kína.  Markmiðið er að draga úr hættu á að veiran berist með innfluttum afurðum til Kína.

Aðgerðir ef jákvætt sýni greinist:

  • Í fyrstu tvö skiptin sem jákvætt sýni greinist er sett innflutningsbann á afurðir viðkomandi framleiðanda í eina viku. Banninu er sjálfkrafa aflétt að viku liðinni.
  • Ef jákvætt sýni greinist í afurðum eða umbúðum þrisvar sinnum eða oftar frá sama framleiðanda er sett innflutningsbann á viðkomandi framleiðanda í fjórar vikur. Banninu er aflétt hverju sinni að fjórum vikum liðnum frá því það er sett á.

Ekkert jákvætt sýni af íslenskum fiskafurðum hefur greinst við innflutningseftirlit í Kína.

 

Deila: