Veiðiferð í leit að glæpum en engin brot fundust

132
Deila:
  • Staðreyndir sem teknar hafa verið saman sýna að starfsmenn Seðlabankans höfðu aldrei rökstuddan grun um brot hjá Samherja og var kunnugt um að útreikningar og skýrslur voru rangar.
  • Húsleit og rannsókn var veiðiferð og þegar engin brot fundust var aðförin réttlætt eftir á með því að hún hafi haft fælingaráhrif.
  • Áður óbirtir tölvupóstar sýna beina þátttöku Ríkisútvarpsins og að ásakanir um undirverðlagningu í húsleit voru gegn betri vitund. Upplýsingum um samkurlið haldið frá Samherja og dómstólum.
  • Ábendingum ríkissaksóknara ítrekað stungið undir stól, bæði árið 2014 og 2019.
  • Fundargerðir bankaráðs sýna að afsakanir stjórnenda Seðlabankans í fjölmiðlum voru rangar.

Þetta kemur fram í grein eftir Örnu McClure, lögmann Samherja sem hún birtir á heimasíðu félagsins. Þar rekur hún gang mála í seðlabankamálinu frá upphafi. Hún fer yfir ferilinn lið fyrir lið eins og það snýr að Samherja, birtir færslur úr fundargerðum og bókunum stjórnar Seðlabankans, tölvusamskipti Seðlabankans og Ríkisútvarpsins og ýmsar yfirlýsingar ráðamanna um málið.

„Í tæp níu ár hefur stærstur hluti af mínu starfi falist í að gæta hagsmuna Samherja vegna ásakana forsvarsmanna Seðlabankans um brot á lögum um gjaldeyrismál. Nú þegar rykið er svo gott sem sest og heildarmyndin orðin skýr, er það með ólíkindum að ýmsir ráðamenn skuli enn halda því fram að Samherji hafi sloppið með hin meintu „brot“ vegna lagaklúðurs. Enn ótrúlegra er að nýjar upplýsingar og gögn eru að berast okkur enn þann dag í dag sem varpa æ skýrara ljósi á málsmeðferð Seðlabankans. Þessar nýju upplýsingar eru ekki til þess að fegra myndina fyrir Seðlabankann en þær sýna jafnframt að Samherji slapp ekki með eitt eða neitt. Þar sem einstaka stjórnmálamenn og ýmsir aðrir hafa í þekkingarleysi eða ósvífni ítrekað farið með rangfærslur í þessu máli finnst mér sem þessir aðilar telji að opið skotleyfi sé á Samherja. Því tel ég rétt að rekja málið, ásakanirnar og þær upplýsingar sem við höfum aflað. Þær staðfesta að ekki er allt sem sýnist þegar kemur að afsökunum og útskýringum stjórnenda Seðlabankans,“ segir Arna í inngangi greinarinnar og ennfremur í lok hennar:

„Staðreyndirnar sem raktar hafa verið hér að framan: að starfsmenn Seðlabankans hafi ekki haft rökstuddan grun; að bankanum hafi verið kunnugt um að útreikningar og skýrslur hafi verið rangar; að bankinn hafi vitað og reglulega verið áminntur að ekki væri fyrir að fara neinum brotum; um skort á refsiheimildum; samkurl starfsmanna Seðlabankans við fréttastofu Ríkisútvarpsins; svo og að starfsmenn Seðlabankans hafa ítrekað haldið frá dómstólum og Samherja mikilvægum gögnum, nú síðast í skaðabótamáli Samherja árið 2020, staðfesta að seðlabankamálið var ekkert annað en skipulögð árás. Þar helgaði tilgangurinn meðalið. Og nú þegar rykið hefur sest, þá sést að þetta var í raun veiðiferð, þar sem komast átti í bókhald félagsins til að leita að glæpum. Og þegar engin brot fundust, var aðförin réttlætt eftir á með því að hún hafi haft fælingarmátt og komið í veg fyrir brot annarra á gjaldeyrislögunum, þjóðinni til heilla. Samherji var því stjaksettur öðrum til viðvörunar.“

Greinina má lesa í heild á heimasíðu Samherja á slóðinni:

https://www.samherji.is/is/frettir/samantekt-um-sedlabankamalid

 

 

Deila: