Samskip flytja frá Kollafirði til Runavíkur

203
Deila:

Lokið er flutningi á afgreiðslustöð og hafnarlægi Samskipa í Færeyjum frá Kollafirði til Runavíkur. Runavík í Skálafirði er þriðja stærsta sveitarfélag Færeyja og sögð búa að bestu hafnarskilyrðum eyjanna með tilliti til veðurfars og viðlegurýmis.

Í nýrri starfsstöð Samskipa í Færeyjum er 700 fermetra vöruhús og 400 fermetra skrifstofurými þar sem starfsmenn eru sameinaðir undir einu þaki. Tilkynnt var um flutninginn fyrr á þessu ári. Í lok desember verður einnig lokið flutningi skrifstofa Samskipa í Færeyjum til Runavíkur og verður þá öll starfsemi félagsins komin þangað, utan kæligeymslu sem áfram verður í Kollafirði.

Með flutningnum eflist þjónusta Samskipa í Færeyjum, en Runavík er nær útflutningsmörkuðum eyjanna því varningur kemur mestanpart frá norðurhluta þeirra.

Við bætist að nýafstaðin opnun nýrra neðansjávarganga milli Þórshafnar og Runavíkur staðsetur Runavík í miðju Færeyja. Nýju göngin stytta aksturstíma milli Runavíkur og Þórshafnar úr klukkustund í fimmtán mínútur, sem er sambærilegt ferðatímanum á milli Þórshafnar og fyrri starfstöðvar Samskipa í Kollafirði.

„Við fögnum komu Samskipa til Runavíkur, þar sem í boði eru kjöraðstæður fyrir starfsemi fyrirtækisins, sér í lagi vegna Austureyjar-Þórshafnar-ganganna nýju. Þá fellur starfsemi Samskipa vel að sögu Runavíkur. Hafnarsvæðið þjónar fjölbreyttri starfsemi og hefur frá stofnun árið 1916 verið ein af umsvifamestu höfnum færeysks sjávarútvegs,“ segir Tórbjørn Jacobsen, bæjarstjóri Runavíkur:

„Það gleður okkur mjög að hafa nú starfsemi okkar undir einu þaki í nýrri starfsstöð í Runavík. Við horfum björtum augum fram á veginn og hlökkum til uppbyggilegra samskipta við bæjarfélagið á nýjum stað sem bæði fellur vel að þörfum fyrirtækisins og aukinnar þjónustu við inn- og útflutning frá Færeyjum,“ segir Sjúrður Johansen, forstöðumaður Samskipa PF í Færeyjum:

Færeyjar eru hluti af siglingaleið Samskipa í Evrópu. Allar upplýsingar um siglingaáætlun Samskipa má nálgast á netinu: https://www.samskip.is/siglingaaaetlanir/raunsiglingar/

 

Deila: