Engin merki um olíuleka úr prammanum

209
Deila:

Það skýrist á næstu dögum hvernig staðið verður að því að ná fóðurpramma Laxa fiskeldis aftur á flot á Reyðarfirði. Kafað var niður að prammanum í dag og ástand hans metið. Engin merki eru um olíuleka úr eldsneytistönkum prammans .samkvæmt frétt ruv.is í kvöld

Fóðurpramminn Muninn sökk í óveðri sem gekk yfir Austfirði um helgina. Í prammanum eru um 300 tonn af laxafóðri og 10.000 lítrar af dísilolíu í eldsneytistönkum. Í dag var kafað niður að prammanum til að meta aðstæður þar sem hann liggur, skammt frá landi, á um 40 metra dýpi. Meðal annars var lokað fyrir loftgöt og fleiri leiðir sem olía getur lekið út um.

Ekki orðið vart við neinn olíuleka

,,Það hefur ekki lekið nein olía úr prammanum, við höfum ekki orðið vör að minnsta kosti við neinn leka,” segir Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis. ,,En fyrsti fasinn í þessu ferli er að útiloka það að olía geti lekið úr prammanum.”

Meta hvenær reynt verður að ná prammanum á flot

Hann segir að aftur verði kafað á morgun og haldið áfram að tryggja að engin olía leki í sjóinn. Í framhaldinu verði svo metið hvernig og hvenær reynt verður að ná prammanum á flot. ,,Ég held að það skýrist bara núna á allra næstu dögum hvernig staðan er á prammanum. Í rauninni hvaða leiðir menn leggja til að verði farnar til þess að ná prammanum á flot aftur.”

Rafeindabúnaður um borð allur ónýtur

Pramminn sjálfur sé heill á botni fjarðarins en miklar skemmdir hafi orðið á tæknibúnaði um borð. Talið er að það tjón sé á bilinu þrjú til fjögurhundruð milljónir króna. ,,Eftirlitskefri og fóðurkerfi og annað. Þannig að það er mikill og flókinn búnaður um borð sem að ég geri ráð fyrir að sé allur ónýtur,” segir Jens Garðar.

Byrja aftur að fóðra fiskinn á morgun

Á meðan prammans nýtur ekki við verður fiskur í eldisstöðinni fóðraður með sérstökum fóðurbyssum úr bátum við kvíarnar. ,,Og fóðrun byrjar bara vonandi á morgun.”

 

Deila: