Hampidjan Offshore stofnað

305
Deila:

Árið 1994 seldi Hampiðjan fyrsta ofurtógið í olíuiðnað og það var fyrsta tógið sem kom í stað stáltogvírs á botnlagsrannsóknarskipi félagsins Petroleum Geo-Services í Noregi sem var brautryðjandi á þessu sviði.   Olíuiðnaðarmarkaðurinn óx stöðugt árin á eftir og það voru þróaðar sífellt fjölbreyttari vörur fyrir þennan markað og í framhaldi af því öflugar lyftistroffur fyrir ýmis verkefni tengd olíuvinnslu.  Undanfarin ár hefur einnig verið sótt inn á önnur svið og sérstaklega það sem tengist uppsetningu á vindmyllum á hafi úti og DynIce Warps á djúpsjávarspil.

„Áhugaverð sóknarfæri eru framundan og þá bæði á nýja markaði og með nýjum lausnum sem eru í þróun fyrir sérhæfð landfestartóg, lyftistroffur, djúpsjávarvindur og krana.  Það krefst átaks í vöruþróun, markaðssetningu og viðskiptaþróun og til þess að þessi framsókn beri árangur þá þarf skýra stefnumörkun og ákveðið sjálfstæði í ákvörðunum og því teljum við nauðsynlegt að efla þessa deild og  núna um áramótin var stofnað dótturfyrirtæki Hampiðjunnar hér á Íslandi undir nafninu Hampidjan Offshore,” segir Hjörtur Erlendsson forstjóri Hampiðjunnar.   „Nafnið er á ensku því öll viðskipti deildarinnar hafa verið erlendis undir þessu sama deildarnafni og hugtakið „offshore” sem áður stóð mest fyrir olíuiðnað hefur á undanförnum árum víkkað og á nú einnig við um aðra álíka starfsemi úti á sjó,” segir hann ennfremur.

„Davíð Waage, sem hefur verið sölu- og markaðsstjóri deildarinnar frá því að hann hóf störf hjá Hampiðjunni 2011, verður framkvæmdastjóri nýja félagsins. Davíð mun leiða starfið í sókn Hampiðjunnar með nýjar vörur inn á núverandi og nýja markaði og við óskum honum allra heilla og velfarnaðar í því starfi,“ segir í frétt frá Hampiðjunni.

Deila: