600.000 hvalir halda sig í Norðaustur-Atlantshafi

440
Deila:

Norskir vísindamenn telja að um 600.000 hvalir haldi sig að jafnaði í Norðaustur-Atlantshafi. Það mat er byggt á niðurstöðum talninga sem stóðu yfir á árunum 2014 til 2018. Telja þeir að fjöldinn sé nokkuð stöðugur í langan tíma. Þessar niðurstöður eru kynntar í vísindariti Nammco, Norræna sjávarspendýraráðsins.

Svæðið sem talningin nær til nær frá Norðursjónum í suðri, uppeftir Noregshafi upp til Jan Mayen og Svalbarða og í Barentshafið, svo og til Austur-Grænlands og hafsins norður af Færeyjum
Samkvæmt talningunni skiptist fjöldinn þannig eftir tegundum:

  • Hnísur 250.000
  • Höfrungar: 200.000
  • Hrefnur: 100.000
  • Háhyrningar 15.000
  • Langreyðar: 10.000
  • Hnúfubakar: 10.000
  • Andarnefjur: 8.000
  • Búrhvalir: 5.000

Af skíðishvölum er hrefnan útbreiddust og er á öllu norðaustanverðu Atlantshafinu. Langreyðurin heldur í landgrunnköntunum og á dýpinu milli þeirra. Hún þrífst þar mest á margskonar dýrasvifi. Hnúfubakinn er mest að finna í stórum torfum kringum Bjarnarey og Hopen, þar sem hann liggur í svifi og loðnu.
Búrhvalurinn, sem er stærsti tannhvalurinn, heldur sig á miklu dýpi vestur af Andöja. Þar er dýpi sem norsku vísindamennirnir kalla Bleiksdjupet og þar sækir hvalurinn fæði niður á mikið dýpi, en enginn hvalur kafar dýpra í ætisleit en búrhvalurinn.
Andarnefjan er einnig djúpkafari, sem heldur sig mikið á svæðinu milli Íslands, Jan Mayen og Svalbarða. Háhyrningar halda sig nær ströndum Noregs, þar sem þeir éta uppsjávarfisk eins og kolmunna, síld og makríl.
Hvalatalning er ekki einfalt mál, því auðvitað er ekki hvert dýr talið. Aðferðin við talninguna byggist á því að marka ákveðnar leitarlínur. Siglt er eftir þessum línum, eða flogið, og hvalir taldir til beggja handa. Þeir eru þá tegundagreindir og staðsetning þeirra miðað við leiðarlínurnar skráð, ef um vöður er að ræða er reynt að meta fjöldann í þeim, því hvalirnir eru ýmist að kafa í fæðuleit eða koma upp á yfirborðið til að anda.

Fjöldi þeirra hvala sem sjást í talningunni er svo færður inn í flókið reiknilíkan ásamt öðrum upplýsingum um veður, vind og skyggni. Út út því kemur mat á því hve margir hvalir eru á hverjum tilteknum ferkílómetra. Það mat er svo yfirfært á allt talningarsvæðið.

 

Deila: