Eru að leita að þorski
,,Það er afskaplega rólegt yfir þessu hjá okkur. Við erum í Víkurálnum og hér er leiðinda bræla. Við erum að leita að þorski en höfum ekki fundið hann í neinu magni enn sem komið er. Hér var mokveiði af stórum og góðum þorski í síðasta túr en þá náðum við fullfermi eftir góða ufsaveiði út af Reykjanesgrunni.”
Þetta sagði Kristján E. Gíslason (Kiddó), sem er skipstjóri á Viðey RE, er heimasíða Brims hafði tal af honum í gær. Kiddó segir að allt hafi gengið upp í síðasta túr en honum lauk sl. sunnudagskvöld.
,,Svona getur þetta verið dyntótt. Nú finnst varla þorskur þar sem allt var vaðandi af stórþorski fyrir aðeins nokkrum dögum. Við eigum ekki að vera í landi fyrr en nk. mánudag þannig að það gefast nokkrir dagar til að finna þorskinn,” segir Kiddó en hann segir framhald túrsins óráðið. Tæpast taki því að reyna fyrir sér á Halamiðum enda hafi Halinn verið óvenju daufur í vetur. Ekki sé einu sinni víst að þar sé hægt að stunda veiðar um þessar mundir. Hafís hafi gert sig heimakominn á Halanum og oftar en ekki hafi skipin þurft frá að hverfa á síðustu vikum.
Svo vikið sé nánar að aflabrögðunum syðra segist Kiddó ekki vera frá því að smá vertíðarstemning sé að komast á veiðina.
,,Stórþorskurinn er mættur og svo hittum við á mjög stóran og fallegan ufsa á utanverðu Reykjanesgrunni. Við enduðum túrinn þar og náðum að fylla. Ætli heilaraflinn hafi ekki verið rúm 180 tonn,” sagði Kristján E. Gíslason (Kiddó).