Framkvæmdir Faxaflóahafna í Sundahöfn háðar umhverfismati

373
Deila:

Samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum fellur fyrirhuguð framkvæmd Faxaflóahafna í Sundahöfn undir flokk A, það er framkvæmd sem ávallt er háð umhverfismati. Um er að ræða efnistöku og haugsetningu sem nemur meira magni en 150.000 m3 og er á svæði sem er stærra en 5 hektarar. Drög að tillögu að matsáætlun voru birt til kynningar um tveggja vikna skeið, frá 23. október til og með 6. nóvember 2020. Á þessu tímabili gafst almenningi tækifæri til að koma með athugasemdir við tillöguna. Engar athugasemdir bárust.

Þann 11. janúar 2021 var gefin út skýrsla af Eflu með tillögu Faxaflóahafna að matsáætlun um þróun Sundahafnar. Í skýrslunni var sett fram tillaga að matsáætlun á umhverfisáhrifum framkvæmda Faxaflóahafna við dýpkun Viðeyjarsunds og landfyllinga. Fyrirhugað er að lengja Skarfabakka til suðurs, færa Kleppsbakka utar, lengja Sundabakka og Vogabakka svo að þeir nái saman. Við Klettagarða verður núverandi landfylling stækkuð utan við skólphreinsistöð Veitna. Í heildina er áætlað að taka 3.150.000 m3 af efni af hafsbotni við dýpkun Viðeyjarsunds. Heildarefnisþörf allra landfyllinga er metin um 2 milljónir m3. Með framkvæmdunum verða aflagðir hafnarbakkar með lengd upp á um 770 m en nýjir bakkar verða í heildina 960 m langir, alls er því verið að auka heildarlengd hafnarbakka um 190 m. Þetta er ekki mikil aukning á hafnarbakkalengd enda eru framkvæmdirnar aðallega til að auðvelda móttöku stærri skipa, einkum nýrra flutningaskipa en einnig til að taka á móti stærri skemmtiferðaskipum og öðrum skipum (Efla, Þróun Sundahafnar, 2021).

Allir geta kynnt sér til­lögu Faxa­flóa­hafna að mats­á­ætlun á umhverf­is­á­hrifum þró­unar Sunda­hafnar og lagt fram athuga­semd­ir. Athuga­semdir skulu vera skrif­legar og ber­ast eigi síðar en 4. febr­úar 2021 til Skipu­lags­stofn­unar bréfleiðis eða með tölvu­pósti á skipu­lag@­skipu­lag.­is

Áhugasamir geta lesið sig til um tillöguna hér

 

Deila: