„Þráhyggja fjölmiðils þróast í ofstæki“

123
Deila:

„Tölfræðileg samantekt á umfjöllun Stundarinnar varpar ljósi á alvarlegt ójafnvægi í umfjöllun þar sem fjöldi birtra greina um Samherja er í hróplegu ósamræmi við öll önnur skrif fjölmiðilsins. Á stundum virðist sem tilgangur útgáfunnar sé fyrst og fremst árásir á þetta eina félag. Svo helteknir eru blaðamenn Stundarinnar af Samherja að nú þegar þeir eru orðnir uppiskroppa með umfjöllunarefni hafa þeir sent útsendara sína á Eyjafjarðarsvæðið þar sem þeir hafa dvalið dögum saman og freistað þess að ná fram neikvæðum ummælum Norðlendinga um félagið.“

Svo segir í pistli sem birtur er á heimasíðu Samerja. Þar segir ennfremur:

„Það er eðlilegt að talsvert sé fjallað um Samherja í fjölmiðlum enda er fyrirtækið stórt og leiðandi í sinni atvinnugrein. Umfang skrifa Stundarinnar um fyrirtækið gengur þó mun lengra en dæmi finnast um. Frá stofnun virðist Stundin hafa haft horn í síðu Samherja, þá einkum og sér í lagi blaðamaðurinn Ingi Freyr Vilhjálmsson. Hann hafði reyndar komið sér upp sömu vinnubrögðum þar sem hann starfaði áður og samtals hefur hann þannig um árabil helgað starf sitt þessu viðfangsefni. Þetta sést glögglega á efnistökum þegar tölfræðin er tekin saman og skoðuð.

Yfirgengilega hátt hlutfall greina um eitt fyrirtæki

Stundin gefur út 24 prentuð tölublöð á ári. Til viðbótar birtir Stundin fréttir, fréttaskýringar og pistla á heimasíðu sinni sem rata ekki alltaf í prentútgáfuna. Á tímabilinu 1. janúar 2019 til 1. janúar á þessu ári birtust alls 99 greinar um íslensk útgerðarfyrirtæki í prentútgáfu Stundarinnar. Af þessum greinum fjölluðu 84 þeirra um Samherja eða 84,85%.

Einhver gæti spurt; er þetta ekki bara eðlilegt hlutfall í ljósi þess að Samherji hefur staðið í ströngu í svokölluðu Seðlabankamáli og svo vegna starfseminnar í Namibíu? Mál tengt Namibíu var ekki til umfjöllunar fyrr en 12. nóvember 2019 og svokölluðu Seðlabankamáli lauk 8. nóvember 2018 þegar Hæstiréttur Íslands felldi úr gildi sekt sem Seðlabankinn lagði á Samherja. Þá sýnir sambærilegt hlutfall í öðrum fjölmiðlum að umfjöllun Stundarinnar er yfirgengileg.

Vegna mikilla skrifa blaðamannsins Inga Freys Vilhjálmssonar um Samherja er áhugavert að skoða hvernig greinar hans skiptast. Á áðurnefndu tímabili birti Ingi Freyr 143 fréttir og fréttaskýringar í prentútgáfu Stundarinnar. Af öllum þessum greinum fjölluðu 60 þeirra um Samherja eða 41,9%. Þetta þýðir að rúmlega fjórar af hverjum tíu greinum sem blaðamaðurinn skrifaði á tæplega tveggja ára tímabili fjölluðu um Samherja. Það eru mörg stórfyrirtæki á Íslandi en Ingi Freyr virðist lítið fjalla um þau enda er áhugasvið hans mjög þröngt eins og þessi tölfræði sýnir. Hversu hátt þarf hlutfall að vera til að teljast þráhyggja? Hversu regluleg þurfa skrifin að vera til þess að geta talist einelti? Þess skal getið að hér eru ótaldar allar þær greinar sem blaðamaðurinn skrifaði um Samherja sem rötuðu beint á vef Stundarinnar og birtust ekki í prentútgáfunni.

Valdi fylgir ábyrgð

Flestum er ljóst að fjölmiðlar gegna mjög mikilvægu hlutverki í lýðræðislegu þjóðfélagi. Þeir veita ekki aðeins valdhöfum aðhald heldur einnig fyrirtækjum í viðskiptalífinu. Þannig má segja að hlutverk fjölmiðla sé fyrst og fremst að gæta hagsmuna almennings og réttur blaðamanna sé þannig samtvinnaður rétti fólksins í landinu. Hið sérstaka hlutverk fjölmiðla í samfélaginu þýðir að það er ekki bara réttur fjölmiðlanna að miðla mikilvægum upplýsingum sem eiga erindi við almenning, heldur er það einnig skylda þeirra. Þess vegna er gott að fjölmiðlar veiti Samherja aðhald, rétt eins og öðrum fyrirtækjum í landinu.

Valdi fylgir hins vegar mikil ábyrgð og fjölmiðlar eru ekki hafnir yfir gagnrýni. Þrátt fyrir smæð íslensks samfélags getur varla talist eðlilegt að 85% af öllum birtum greinum um fyrirtæki í tiltekinni atvinnugrein á tveggja ára tímabili fjalli um eitt félag og að fjórar af hverjum tíu greinum sama blaðamannsins fjalli um þetta sama fyrirtæki. Að reyna að verja slíkt og segja það eðlilegt gengur í berhögg við heilbrigða skynsemi.

Eins og vikið var að framar virðist þessi þráhyggja Stundarinnar eiga sér ýmsar birtingarmyndir. Að undanförnu hafa blaðamenn Stundarinnar verið á ferðinni á Akureyri í því skyni að finna neikvæðar fréttir um Samherja. Þannig hafa þeir sótt á bæjarstjóra og bæjarfulltrúa með hringingum úr óskráðum símanúmerum eins og tíðkast í undirheimum, mætt óboðnir á starfsstöðvar fjölmiðla með fyrirspurnir um rekstur þeirra og sótt á fólk á förnum vegi við dagleg störf. Virðist sú yfirgengilega umfjöllun Stundarinnar, sem verið hefur í blaði og vefmiðli og áður var rakin, vera komin á nýtt stig eineltis og ofstækis.“

 

Deila: