Ný ráðgjafarregla fyrir hrognkelsi kynnt

302
Deila:

Vísitala byggð á stofnmælingu botnfiska að vori verður áfram grunnurinn að fiskveiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar vegna hrognkelsaveiða. Stofnunin telur að ef þessari nýju ráðgjafarreglu verði fylgt séu miklar líkur á að hrognkelsastofninn verði nýttur á sjálfbæran hátt í samræmi við markmið varúðarnálgunar.

Hafrannsóknastofnun kynnti í gær afrakstur endurskoðunar á stofnmati og ráðgjafarreglu hrognkelsis fyrir hagsmunaaðilum. Í kjölfar mikillar umræðu og skoðanaágreinings vorið 2020, meðal annars um forsendur aflaútreikninga sem fyrri ráðgjöf byggði á, var ákveðið að fara í þessa endurskoðun. Hefur sú vinna staðið yfir frá því í vor og er tækniskýrsla um endurskoðun nú útgefin. Smelltu á hlekkinn hér á eftir til að opna skýrsluna. Tækniskýrsla.

Miklar líkur eru á sjálfbærri nýtingu hrognkelsastofnsins

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru að vísitala byggð á stofnmælingu botnfiska að vori (SMB) verður áfram grunnurinn að fiskveiðiráðgjöfinni. Ráðgjöfin mun byggja á svipaðri ráðgjafarreglu og fyrr, en með breytingum og viðbótum.

Nýja reglan gerir ráð fyrir því að nýta stofninn með sama veiðistuðli og stefnt var að með fyrri aflareglu (Fproxy=0.75; mynd). Ákvörðunin byggir á því að ráðgjöfin árin 2014-2019, sem takmarkaðist við þennan veiðistuðul, virðist hafa leitt til sjálfbærrar nýtingar miðað við þróun vísitalna SMB eftir 2014. Ráðgjöfin mun því byggja á vísitölu SMB þar sem vísitala frá ráðgjafarárinu vegur 70% á móti 30% frá vísitölu fyrra árs, sem er eins og í fyrri reglu. Loks er bætt við aðgerðarmarki (Itrigger), sem ekki var í fyrri reglu, þar sem veiðistuðullinn lækkar línulega niður í gildi sem samsvarar lægstu þekktu vísitölu frá SMB (Ilim). Neðan við það gildi verður veiðistuðullinn 0 fyrir það ár og hefur þá annað hvort 70% eða 30% vægi.

Hafrannsóknastofnun metur það svo að verði þessari nýju ráðgjafarreglu fylgt við stjórn veiða á hrognkelsi séu miklar líkur á að stofninn verði nýttur á sjálfbæran hátt í samræmi við markmið varúðarnálgunar.

 

Deila: