Góður afli hjá ísfisktogurunum

96
Deila:

Ísfisktogararnir Gullver NS, Vestmannaey VE og Bergey VE eru allir að landa fullfermi í dag. Gullver landar á Seyðisfirði, Vestmannaey í Neskaupstað og Bergey í Vestmannaeyjum. Samtals er afli skipanna 257 tonn, mest þorskur og ýsa.

Þórhallur Jónsson var skipstjóri á Gullver í veiðiferðinni og segir hann að hún hafi gengið vel. „Það var í reynd jöfn og góð veiði allan túrinn. Við byrjuðum í þorski á Fætinum. Síðan var farið í Litladýpi og tekin þar tvö hol. Þar reyndist mest vera ýsa og það var ekki ætlunin að fá hana í ríkum mæli. Við færðum okkur út á Þórsbanka og fengum þar góðan þorsk í sólarhring eða svo. Í gærmorgun færðum við okkur upp á Herðablað og lentum þar í fínni þorskveiði. Við komum síðan til löndunar klukkan átta í morgun með 111 tonn. Þetta er betri afli en verið hefur að undanförnu. Líklega er fiskurinn kominn í loðnuna hérna fyrir austan,“ segir Þórhallur í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Gullver mun halda á ný til veiða eftir hádegi á morgun.

Þegar rætt var við Jón Valgeirsson skipstjóra á Bergey í morgun var skipið á leið til Vestmannaeyja. „Við verðum komnir seinni partinn til Eyja. Við erum hérna í skíta helvítis austan brælu. Bæði við og Vestmannaey vorum mest á Breiðdalsgrunni í túrnum og við vorum helst við Bæli karlsins. Einnig var farið út á Þórsbanka en þar var heldur tregt. Við erum með fullfermi þannig að vart er hægt að kvarta og Vestmannaey fór með fullfermi til Neskaupstaðar. Aflinn hjá okkur skiptist til helminga, þorskur og ýsa. Það verður stoppað í landi í sólarhring eða svo og síðan verður haldið á ný til veiða,“ segir Jón.
Ljósmynd Ómar Bogarson

 

Deila: