Marel kaupir 40% hlut í Stranda Prolog

204
Deila:

Marel hefur tilkynnt um kaup á 40% hlut í norska fyrirtækinu Stranda Prolog. Fyrirtækið framleiðir búnað til vinnslu á laxi. Jafnframt hafa fyrirtækin ákveðið að sameina krafta sína í markaðsfærslu.

Kaupin eru í samræmi við þá stefnu Marel að geta boðið upp á heildarlausnir í framleiðslu á fiski, kjöti og fuglakjöti. Vöruúrval Stranda Prolog fyrir frumvinnslu á laxi og landbúnaðarafurðum færi Marel nær þeirri stefnu sinni.

Marel og Stranda Prolog hafa lengi átt í samskiptum við marga af stærstu framleiðendum heims á eldislaxi og hafa saman náð að afhenda heildarlausnir með hugbúnaðarkerfinu Innova, sem ná yfir alla þætti vinnslunnar.

Samlegðaráhrif fyrirtækjanna gera þeim kleift að ná til fleiri framleiðenda á heimvísu í framtíðinni og bæta þjónustu sína við þá. Jafnframt er gert ráð fyrir því að sameiningin auki slagkraft fyrirtækjanna á mörkuðum.

Ánægja með samstarfið

Haft er eftir Guðbjörgu Heiðu Guðmundsdóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra fiskisviðs Marel, að Marel hlakki til að hefja samstarf með Stranda Prolog, sem sé framsækinn framleiðandi á búnaði til frumvinnslu á laxi. Þekking þess á meðhöndlun á hráefninu og lausnir þess í gæðamálum endurspegli sterka stöðu þess á mörkuðunum. Á síðustu árum hafi Marel og Stranda Prolog náð miklum árangri í heildarlausnum fyrir framsækin fyrirtæki. Með því að sameina krafta sína verði fyrirtækin öflugri og staða þeirra betri til að hjálpa laxaiðnaðinum til að til að ná betra vinnsluflæði, tryggja mikilvægar upplýsingar og framleiða hágæða vörur fyrir neytendur um veröld víða.

Klaus Hoseth, forstjóri Stranda Prolog segir meðal annars að hann taki á móti Marel sem kjölfestufjárfesti með opnum örmum og virðingu. Fyrirtækið sé stolt af því að vera komið í formlega samvinnu með Marel, sem með stafrænum lausnum og árangri í sölu og þjónustu deili hugsjónum um að skapa framsæknar lausnir fyrir stöðugt vaxandi fiskiðnað á heims vísu. Fyrirtækið muni áfram standa undir nafni fyrir núverandi viðskiptavinum, en fyrir nýja viðskiptavini á mörkuðunum verði það þekkt sem samstarfsaðili Marel.

 

Deila: