Fagnar loðnuvertíð

111
Deila:

Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum fagnar því að loks verði loðnuvertíð eftir tveggja ára hlé. Þetta skipti bæjarfélagið og þjóðarbúið verulegu máli samkvæmt frétt ruv.is

Hafrannsóknastofnun leggur til að loðnuveiði á vertíðinni verði rúm 127 þúsund tonn. Þetta er lokaráðgjöf og byggt á tveimur rannsóknaleiðöngrum og er sú heildaryfirferð talin ná yfir allt útbreiðslusvæði hrygningarloðnu.
Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar byggir á summu tveggja rannsóknaleiðangra sem farnir voru seinnipart janúar. Hrygningarstofn loðnu að þeim loknum er metinn á samtals 650 þúsund tonn. Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum fagnar þessum tíðindum.

„Þetta eru náttúrlega mjög jákvæðar fréttir eftir tvö ár af loðnubresti, það skiptir miklu máli að við fáum vertíð. Auðvitað hefðum við öll viljað hafa úthlutunina hærri en þetta þýðir að öllum líkindum tíu milljarða loðnuvertíð, sem eru gríðarlega jákvæðar fréttir.“
Vestmannaeyjar eru mikill loðnuveiðibær?
„Já, hér í Eyjum eru fyrirtæki með um einn þriðja loðnukvótans þannig að þetta skiptir samfélagið hér mjög miklu máli, eins og þjóðarbúið allt.“

Íris segir það líka mikilvægt að geta haldið mörkuðum fyrir loðnu. Þrátt fyrir loðnubrest undanfarin tvör ár segist hún ekki hafa verið orðin úrkula vonar.

„Það voru náttúrlega góð fyrirheit um ungloðnu á þessu ári þannig að ég er bara kát og glöð með stöðuna eins og hún er í dag.“

 

Deila: