Starfsánægja og ánægja með stjórnendur Hafró eykst

133
Deila:

Starfsánægja hjá starfsfólki Hafrannsóknastofnunar óx mikið á síðasta ári og er almenn ánægja með stjórnendur stofnunarinnar. Þetta er meðal niðurstaðna könnunar á starfsánægju og vellíðan starfsfólks sem Gallup gerði fyrir Hafrannsóknastofnun í nóvember síðastliðnum. „Þetta eru gleðifréttir en við höfum unnið markvisst að því að byggja upp traust, auka starfsánægju og vellíðan starfsfólks á síðasta ári,“ segir Berglind Björk Hreinsdóttir, mannauðsstjóri Hafrannsóknastofnunar.

„Við gengum í gegnum erfiðar hagræðingaraðgerðir undir lok árs 2019 og í kjölfarið féll starfsánægja umtalsvert, eins og mældist í hinni árlegu könnun um Stofnun ársins í byrjun árs 2020. Við ákváðum því að endurtaka sambærilega könnun til að meta árangur af starfi okkar og ekki síður líðan starfsfólks. Þátttaka í könnuninni var afar góð, eða um 91%, og óhætt er að segja að niðurstöðurnar hafi einnig verið jákvæðar.“

Ánægja með vinnuaðstöðu þrátt fyrir mikla fjarvinnu
Starfsfólk Hafrannsóknastofnunar er sem fyrr ánægt með sveigjanleika og sjálfstæði í starfi. Með flutningi höfuðstöðva Hafrannsóknastofnunar í nýtt húsnæði við Hafnarfjarðarhöfn sem var sérhannað fyrir starfsemi stofnunarinnar hefur starfsaðstaða og aðbúnaður starfsfólks aukist verulega. Í könnunni var spurt um mat á vinnuaðstöðu og er starfsfólk ánægt með vinnuaðstöðu sína og hefur sú ánægja aukist milli mælinga. „Við sjáum ánægjuna aukast þrátt fyrir að mörg okkar hafi ekki getað upplifað nýja starfsstöð sína að fullu vegna fjarvinnu í tengslum við COVID-19 faraldurinn. Það verður því áhugavert að sjá hvernig þróun á mati starfsfólks á starfsaðstöðu þróast næstu árin.“

Ánægja á stjórnendum eykst
„Traust er afar brothætt og það getur tekið langan tíma að endurvinna það ef slíkt glatast og því er mikilvægt fyrir stjórnendur að byggja upp og viðhalda trausti milli þeirra og starfsfólks. “ Berglind Björk segir eðlilegt að vissrar óánægju gæti með stjórnendur í kjölfar erfiðra rekstrarákvarðana á borð við uppsagnir starfsfólks.
Því var ákveðið að framkvæma stjórnendamat samhliða könnun á starfsánægjukönnuninni. „Niðurstöðurnar eru þær að starfsfólk er ánægðara með stjórnunina nú en áður og er á heildina litið ánægt með yfirmenn stofnunarinnar. Þá má bæta við að tilfinning fólks fyrir starfsöryggi hefur einnig vaxið.“

„Við munum halda áfram að vinna að því að gera Hafrannsóknastofnun að enn betri vinnustað þar sem okkar fremstu vísindamenn á sviði haf- og vatnarannsókna starfa og er ekki hægt að segja annað en að framtíðin sé björt.“

 

Deila: