Eftirlit með drónum hefur sýnt nokkur tilfelli um brot

100
Deila:

Fiskistofa hefur hafi eftirlit með fiskveiðum með drónum. Það eftirlit hefur þegar skilað nokkrum tilfellum um brot á reglum um fiskveiðar. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2019 kom fram gagnrýni á eftirlit Fiskistofu. Fram kom að eftirlitið þyrfti að vera skilvirkara og gagnsærra til þess að hafa tilætluð fælingar- og varnaðaráhrif. Fjallað er um eftirlitið í færslu á heimasíðu Fiskistofu:

Fiskistofa hefur  alltaf leitað leiða til að bæta árangur sinn.  Þannig hóf Fiskistofa notkun dróna við eftirlit nú í janúar. Nýtast þeir sem framlenging á augum eftirlitsmanna við aðstæður þar sem erfitt er að komast að til eftirlits. Er það mat Fiskistofu að notkun þeirra hafi ákveðinn fælingarmátt og varnaðaráhrif. Einnig er notkun drónanna ætlað að tryggja að ákvarðanir Fiskistofu byggi á réttum upplýsingum um málsatvik þegar upp koma brotamál. Eftirlit með drónum hefur þegar skilað nokkrum tilvikum þar sem því miður virðist sem brotið hafi verið á þeim reglum sem gilda um fiskveiðar. Drónarnir hafa  einkum  gefið til kynna tilfelli þar sem um  er að ræða meint brottkast. Vonir Fiskistofu stóðu til þess að notkun drónanna myndi sýna fram á að umgengni við auðlindina væri til fyrirmyndar.

Tekið skal fram að tækjunum er ávallt stjórnað af veiðieftirlitsmanni sem er viðstaddur og sér myndefnið úr myndavél drónans í beinu streymi. Annars vegar er um að ræða vöktun í rauntíma þar sem myndefni er ekki safnað og hins vegar söfnun myndefnis í þeim tilfellum þar sem upp kemur grunur um frávik frá lögum og reglum. Upptaka er því ekki virkjuð nema í þeim tilvikum að eftirlitsmaður hefur séð brot. Um vinnslu myndefnis fer samkvæmt gildandi reglum og fyrirmælum Persónuverndar.

Fiskistofa vann mat á áhrifum vinnslunnar á persónuvernd, sbr. 29. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, áður en beiting drónanna hófst og er áhætta við notkun þeirra talin lítil. Ennfremur hafa þeir eftirlitsmenn Fiskistofu sem sinna eftirliti með notkun dróna fengið sérstaka fræðslu um persónuvernd.

Fiskistofu leitaði til Persónuverndar varðandi notkun drónanna. Fiskistofu er með lögum falið að fylgjast með framkvæmd laga um stjórn fiskveiða og að hafa eftirlit með fiskveiðum. Með hliðsjón af því var það mat Persónuverndar að vinnsla Fiskistofu á upplýsingum um refsiverðan verknað á þann hátt sem lýst var í erindi Fiskistofu til Persónuverndar falli undir lögbundið hlutverk stofnunarinnar. Að öðru leyti gerði Persónuvernd ekki frekari athugasemdir við Fiskistofu um málið að svo stöddu.

 

Deila: