Samdráttur í sölu sjávarafurða frá Noregi

190
Deila:

Verðmæti útfluttra sjávarafurða frá Noregi féll verulega í janúarmánuði síðastliðnum miðað við sama mánuð á síðasta ári. Útflutningurinn skilaði alls 122 milljörðum íslenskra króna. Það er samdráttur um 16%. Fallið má fyrst og fremst rekja til mikillar lækkunar á útflutningsverðmæti á laxi.

Alls fóru utan 95.600 tonn af laxi í janúar að verðmæti 78 milljarðar íslenskra króna. Það er vöxtur í magni um 11%, en samdráttur í verðmæti um 23%. Meðalverð á laxinum nú í janúar var 733 krónur, en í sama mánuði í fyrra var það 1.334 krónur. Helstu markaðslöndin nú voru Pólland, Frakkland og Bandaríkin. Skýringin á lágu verði nú, er að veitingahúsamarkaðurinn er nánast lokaður. Svíar virðast hafa tæmt kæli- og frystiskápa yfir jólin, því þar var töluverð aukning á kaupum á laxi frá Noregi í janúar.

Betur gekk hlutfallslega að selja þurrkaðan saltfisk í janúar. Utan fóru 9.600 tonn og er það aukning um 12%, en verðmætið hækkaði um 10%. Þessi fiskur fer mest til Brasilíu, Portúgals og Dóminíkanska lýðveldisins.

Mun minna fór utan af blautverkuðum saltfiski nú en í fyrra. Magnið nú varð 1.200 tonn, sem er 2% samdráttur. Verðmætið féll um 5%. Þessi fiskur fer mest til Portúgal, Ítalíu og Spánar.

508 tonn af skreið fóru utan og er það vöxtur um 26%, en verðmæti hækkaði minna eða um 16%. Skreiðin fer að mestu til Ítalíu, Bandaríkjanna og Nígeríu.

4.000 tonn af ferskum þorski að verðmæti 2,7 milljarðar voru flutt utan í janúar. Það er samdráttur um 34% í magni og 44% í verðmæti. Mest af ferska þorskinum fór til Danmerkur, Svíþjóðar og Þýskalands. Vertíðin hófst seint að þessu sinni og brælur hömluðu veiðum. Að auki var eftirspurn lítil, sérstaklega vegna lokana veitingahúsa.

Það gekk betur í frysta þorskinum. Af honum fóru utan um 6.900 tonn að verðmæti 3,9 milljarðar króna. Það er aukning í magni um 35%, en verðmætið jókst aðeins um 12%. Að miklu leyti er um heilfrystan, hausaðan þorsk að ræða og fer hann til Kína í frekari vinnslu og þaðan til útflutnings á vestræna markaði. Að auki fór nokkuð af þorski til Bretlands og Litháen.

Á síðasta ári var sett met í útflutningi á makríl og heldur sú þróun áfram í upphafi árs. Í janúar fóru utan 41.800 tonn af makríl að verðmæti 9,4 milljarðar króna.  Magníð jókst um 57% og verðmætið hækkaði um 43%. Það eru Suður-Kóreumenn og Japanir, sem kaupa mest af norska makrílnum.

Það gekk lakar í síldinni. Aðeins 28.100 tonn fóru utan og var verðmætið 4,7 milljarðar króna. Magnið féll um 20% og verðmætið um 8%.

 

Deila: