Loðnustemmningin

97
Deila:

Á fyrri tíð fjölluðu margir um þá stemmningu sem myndaðist í síldarbæjunum þegar síldarvertíð hófst. Síldin, þessi litli fiskur, hafði undarleg áhrif á mannfólkið. Því var lýst hvernig sjúkir risu úr rekkjum sínum þegar síld tók að veiðast, hvernig daprir urðu glaðir og hvernig latasta fólk varð hamhleypur til verka. Og fólk víðs vegar að réði sig í síldarvinnu til að upplifa síldarstemmninguna og allt það fjör sem fisknum fylgdi. Á heimasíðu Síldarvinnslunnar er lýst þeirri stemmningu sem fylgir loðnunni nú.

Ef einhver fiskur kemst nálægt því að skapa þá stemmningu sem fylgir síldinni þá er það loðnan. Þegar loðna tekur að veiðast færist bros yfir mörg andlit og loðnubæirnir lifna við. Forsvarsmenn fyrirtækjanna verða glaðir og sömuleiðis verkafólkið og sjómennirnir. Þá færist vellíðunarsvipur yfir andlit sveitarstjórnarmannanna sem sjá fram á betri tíð. Það eru ekki síst þeir sem hugsa um hag hafnarsjóðsins sem fyllast kæti og sjá fram á betri tíma og jafnvel auknar framkvæmdir.
Tvö síðustu ár hafa verið loðnulaus og loðnustemmningin fjarlæg. Nú bregður hins vegar svo við að gefinn hefur verið út kvóti. Þó kvótinn sé ekki stór virðist hann duga til að skapa stemmninguna og það er bjart yfir austfirsku loðnubæjunum. Íslensk loðnuskip liggja að vísu enn bundin við bryggju og bíða þess að hrognafylling loðnunnar aukist, en grænlensk, færeysk og ekki síst norsk skip hafa verið að veiðum úti fyrir Austfjörðum. Norsku skipin hafa verið um 20 talsins og þau mega ekki veiða sunnan línu sem dregin er í austur frá punkti sunnan Álftafjarðar. Allmörg þessara norsku skipa hafa landað afla á Fáskrúðsfirði, Eskifirði og í Neskaupstað.

Hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað ríkir ótvíræð loðnustemmning. Fyrirtækið gerir út tvö skip til loðnuveiða auk þriðja skipsins sem er í eigu dótturfélagsins Runólfs Hallfreðssonar ehf. Áhafnir þessara skipa hafa verið í startholunum og gert er ráð fyrir að þau haldi jafnvel til veiða um komandi helgi. Í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar starfa um 80 manns á loðnuvertíð og þar hefur verið fryst loðna úr norskum skipum allan sólarhringinn að undanförnu. Nær öll loðnan fer til manneldisvinnslu en ef eitthvað af aflanum færi til framleiðslu á mjöli og lýsi þá starfa um 20 manns í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar. Á hinu nýja netaverkstæði Hampiðjunnar í Neskaupstað hafa verið miklar annir en þar starfa 7-8 manns að öllu jöfnu. Svo mikil verkefni hafa fylgt loðnuvertíðinni að Hampiðjan hefur sent viðbótarmannskap til starfa í Neskaupstað.

Þegar tíðindamaður heimasíðunnar tók hafnarrúnt í gær var verið að landa loðnu úr norska skipinu Steinevik og við netagerðarbryggjuna lá Rav sem hafði orðið fyrir því að skemma loðnunótina mikið. Inni í fiskiðjuverinu var allt á fullu og fryst loðna hlóðst upp í frystigeymslunum. Allir sem voru á ferli voru að flýta sér því verkefnin voru næg. Loðnustemmningin var ótvírætt gengin í garð.
Ljósmyndir Smári Geirsson.

Gert við loðnunót norska skipsins Rav hjá Hampiðjunni í
Neskaupstað. Ljósm. Smári Gerisson

 

Deila: