Eigendur Norðanfisks kaupa Eðalfisk í Borgarnesi

222
Deila:

Eigendur Eðalfisks ehf. í Borgarnesi hafa gengið að kauptilboði Brimilshólma ehf. í allt hlutafé félagsins. Tilboðið er háð tilteknum fyrirvörum af hálfu beggja aðila og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar. Gert er ráð fyrir að niðurstaða úr henni liggi fyrir á næstu vikum. Eðalfiskur ehf. er 34 ára fyrirtæki sem stofnað var í Borgarnesi þar sem það hefur verið rekið alla tíð. Eðalfiskur sérhæfir sig í framleiðslu, sölu og dreifingu á ferskum, frystum, reyktum og gröfnum laxaafurðum þar sem stór hluti afurða fyrirtækisins er seldur á erlendum mörkuðum. Jafnframt eru þessar afurðir vinsælar á innanlandsmarkaði ásamt reyktum silungi, reyktri Egilssíld og graflaxsósu. Kaupverð er ekki gefið uppi í tilkynningu vegna kaupanna.

„Á bak við Brimilshólma, sem kaupir Eðalfisk, er öflugur hópur sem er að veðja á framtíðarsýn til sóknar á erlendum markaði og við höfum mikla trú á tækifærum á innanlandsmarkaði líka. Þetta er sami hópur og kom að kaupum á Norðanfiski ehf. á síðasta ári sem er sömuleiðis traust og gott félag sem þjónustar stóreldhús, verslanir og veitingastaði á innanlandsmarkaði. Ég vil þakka eigendum Eðalfisks fyrir faglega vinnu í þessu söluferli,“ segir,“ Inga Ósk Jónsdóttir í tilkynningu fyrir hönd Brimilshólma.

„Rekstur Eðalfisks á sér langa og farsæla sögu í Borgarnesi sem við erum stolt af og við fögnum því að kaupendur séu öflugur hópur og höfum við fulla trú að félagið muni halda áfram að vaxa og dafna með nýjum eigendum,“ segir Kristján Rafn Sigurðsson framkvæmdastjóri og einn af núverandi eigendum Eðalfisks.
Frétt af skessuhorn.is

 

 

Deila: