Hafró tekur þátt í ECOTIP

194
Deila:

Hafrannsóknastofnun tekur þátt í fjögurra ára alþjóðlegu Evrópuverkefni ECOTIP (https://ecotip-arctic.eu/) sem styrkt er af Rannsókna-og nýsköpunaráætlun ESB (Horizon 2020). Verkefnið mun leitast við að skilgreina hugsanlega vendipunkta eða þolmörk í vistkerfum norðurslóða í tengslum við umhverfisbreytingar og meta afleiðingar af keðjuverkunum sem verða í vistkerfinu þegar farið er yfir þolmörk þess.

Minni hafís, bráðnun Grænlandsjökuls og þar af leiðandi aukið flæði ferskvatns í Norðurhöfum getur þegar ákveðnum vendipunkti er náð hrundið af stað keðjuverkandi afleiðingum fyrir vistkerfið (“ecosystem tipping cascade”). Þetta getur valdið því að vistkerfið umturnast með miklum áhrifum á framleiðni innan fæðuvefsins með umtalsverðum félagslegum og efnahagslegum afleiðingum.

Í þessu sambandi verður m.a. skoðað hvernig breytingar í útbreiðslu og gönguhegðun loðnu geta verið tengdar slíkum ferlum. Mikilvægt er að öðlast frekari skilning á áhrifum umhverfisbreytinga á vistfræðilega mikilvægan uppsjávarfisk eins og loðnu sem er í nánum tengslum við mörk heimskautasvæða.

 

Deila: