Loðnufrystingu lokið, hrognavinnsla framundan

115
Deila:

Loðnufrystingu er lokið í fiskiðjuverinu í Neskaupstað á þessari loðnuvertíð og nú er beðið eftir að hrognataka hefjist. Börkur NK er á Breiðafirði, Beitir NK á leiðinni vestur fyrir land og Bjarni Ólafsson AK bíður átekta í höfn syðra.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra á Berki í morgun og spurði hvenær veiðar á hrognaloðnunni hæfust. „Ég veit það ekki alveg. Það er hálfgerð bræla hér á Breiðafirðinum og við erum bara í biðstöðu. Í augnablikinu höfum við líka lítið séð en það mun breytast þegar skipum fjölgar hérna og veðrið lagast. Veðrið á að ganga niður í dag og ég held að eigi að verða fínt veður á morgun. Síðan er það bara spurningin hvort loðnan er tilbúin til hrognatökunnar,“ segir Hálfdan.

Grænlenska loðnuskipið Polar Amaroq frystir aflann um borð og hefur landað fullfermi sex sinnum það sem af er vertíðinni. Skipið landaði sl. laugardag og lá síðan inni á Faxaflóa að frysta afla á meðan á brælunni yfir helgina stóð en aflinn var geymdur í tönkum skipsins á meðan landað var. Ólafur Sigurðsson stýrimaður segir að vertíðin hafi gengið afar vel til þessa. „Við erum núna í sjöunda túr og það hefur allt gengið eins og í sögu. Vinnslan hefur gengið vel og veiðin verið góð. Við fórum út klukkan sex í morgun og erum núna suðvestur af Garðskaga að leita,“ segir Ólafur.
Polar Amaroq að loðnuveiðum. Ljósm. Sævar Áskelsson

 

Deila: