Hrognavinnslan fer vel af stað

91
Deila:

Vinnsla á loðnuhrognum hófst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað í gærkvöldi þegar byrjað var að landa úr Beiti NK sem kominn var með liðlega 2000 tonn. Þegar var byrjað að kútta loðnuna og hreinsa og dreina hrognin en pökkun átti að hefjast nú um hádegisbil.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóra og spurði hvernig hrognavinnslan færi af stað. „Hún fer vel af stað og allur búnaður hefur reynst vera í besta lagi og virkar vel en hann hefur ekki verið notaður í þrjú ár. Við fórum frekar rólega af stað en erum að kútta um það bil 70 tonn á tímann. Það eru allir ánægðir með að hrognavinnslan skuli vera hafin og þá ekki síst fulltrúar japönsku kaupendanna sem hér eru og fylgjast nákvæmlega með öllu. Það verður unnið í hrognunum á tveimur vöktum og það eru 25 manns á hvorri vakt þegar iðnaðarmenn eru meðtaldir. Við gerum ráð fyrir að ljúka við loðnuna í Beiti í fyrramálið en þá mun Börkur væntanlega koma og síðan Bjarni Ólafsson. Veiðin er fyrir vestan land og það er 30 tíma sigling til Neskaupstaðar af miðunum en hann spáir blíðuveðri þannig að þetta lítur allt afar vel út,“ segir Jón Gunnar.

Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri fylgist náið með hrognavinnslunni. Ljósm. Hákon Ernuson

 

Deila: