Börkur á landleið með síðasta loðnufarminn

100
Deila:

Loðnuvertíðinni er að ljúka. Börkur NK er á leið til Neskaupstaðar með rúmlega 1.900 tonn og er það síðasti farmurinn sem berast mun til Neskaupstaðar á vertíðinni. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra í morgun en þá var skipið statt út af Alviðruhömrum.

„Við lukum við að veiða síðdegis í gær en við fengum aflann í 6 eða 7 köstum 10-12 mílur vestur af Öndverðarnesi. Þetta er loðna sem er alveg komin að hrygningu og jafnvel er einstaka loðna búin að hrygna. Þessi loðnuvertíð hefur gengið alveg ótrúlega vel. Það hefur verið góð veiði og tíðarfarið hefur verið einstaklega gott. Ein suðvestan bræla um þetta leyti getur eyðilagt hrognavertíðina þannig að veðrið skiptir afar miklu máli. Við gerum ráð fyrir að koma til Neskaupstaðar um miðnætti,“ segir Hálfdan.

Lokið var við að landa 2.200 tonnum af hrognaloðnu úr Beiti NK í gærkvöldi og í morgun hófst löndun úr Polar Amaroq sem kominn var með 1.250 tonn í hrognavinnslu og 650 tonn af frystri loðnu.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason

 

Deila: