Eins og sprengja að springa undir okkur

252
Deila:

„Ég var búinn að finna fyrir skjálftum upp á svona 4,5 plús í brúnni út af Krýsuvíkurberginu, en strákarnir um borð fundu aldrei fyrir þeim. Svo þegar skjálftinn upp á 5,4 kom í fyrradag, þá var hann svo nálægt okkur, bara fjórar sjómílur frá okkur, að allir fundu fyrir honum. Þetta var rosa högg sem við fengum á skipið. Bara eins og sprengja væri að springa undir okkur. Alveg ótrúlegt. Það var eins og báturinn lyftist undir okkur, höggið undir hann var svo mikið. Manni stóð ekkert á sama.“

Svona lýsir Kristgeir Arnar Ólafsson, skipstjóri á netabátnum Kap II VE upplifun sinni af jarðskjálftunum á Reykjanesi undan farna daga. „Þessir skjálftar finnast vel út á sjóinn og stundum finnst manni eins og maður sé að fá eitthvað í skrúfuna. Nema þessi stóri. Hann var miklu meira en það. En við fundum líka fyrir skjálftunum við bryggjuna í Grindavík, þegar við komum þar inn um daginn.“

Svolítið sérstök vertíð

En snúum okkur að vertíðinni. Hvernig hefur hún verið? „Þetta er búin að vera svolítið sérstök vertíð. Hún er til dæmis ekki byrjuð í Faxaflóanum ennþá. Það er bara smá reytingur þar, það hafa þó komið einstaka góðir dagar þar. Hins vegar er búin að vera mjög góð veiði upp undir fjöru fyrir suðvesturlandinu síðustu daga og í Breiðafirðinum er mjög góð veiði. Ég hef mest verið í Breiðafirðinum, Faxaflóanum og svo suður af Grindavík. Í janúar og febrúar var ég alveg í Breiðafirðinum.“

Kristgeir segir að þetta sé alvöru vertíðarfiskur sem þeir eru að fá í netin, svona um átta kílóa fiskur. Þeir eru með sjö til átta trossur í sjó, leggja yfirleitt seinni partinn á daginn og byrja svo að draga morguninn eftir.

Veiða á skjálftasvæðinu

„Marsmánuður gekk frekar illa hjá mér, byrjaði full rólega fyrstu dagana, en nú er búin að vera glymjandi veiði suður af Grindavík, alveg upp í skjálftasvæðinu, bara topp veiði, en út af veðri er ég núna kominn aftur í Breiðafjörðinn. Það verður svo mikill straumur með Suðurlandinu, þegar hann leggst í þessa suðaustanátt. Þá þýðir ekkert að vera þar. Því fer maður vestur.“

Besti róðurinn hjá þeim á Kap II til þessa er 126 kör eða um 35 tonn. „Við fengum það í sjö trossur fyrir helgina og það er bara mjög gott .Ég veit ekkert hvað við erum komnir með á vertíðinni. Ég pæli ekkert í því, ég hugsa bara um daginn í dag og næsta dag.

Veiða jólamatinn fyrir Portúgali

Við erum bara að einbeita okkur að stóra þorskinum, sem fer í salt fyrir markaðinn í Portúgal. Fiskurinn fer í salt hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum. Við erum að veiða jólamatinn fyrir þá í Portúgal. Í fyrra seldist öll framleiðslan og ég geri ekki ráð fyrir öðru en það verði saltfiskur í matinn hjá þeim á næstu jólum,“ segir Kristgeir.
Ljósmyndir Hjörtur Gíslason

Deila: