Loðnusjómenn telja sig hlunnfarna

141
Deila:

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segir félagsmenn sína fullyrða að þeim hafi verið greitt alltof lítið fyrir sinn hlut í loðnuvertíðinni sem nú er lokið. „Við teljum bara mjög óeðlilegt að það sé hægt að borga norskum skipum 220-230 krónur á kíló fyrir loðnu sem er ekki eins verðmæt og loðnan sem íslensku skipin voru að veiða. Þau fá líklega um hundrað krónur,“ segir Valmundur í samtali við Fréttablaðið.

Nánar útskýrir Valmundur að þar sem norsku skipin hafi veitt loðnukvóta sinn í íslensku lögsögunni á undan íslensku skipunum hafi sú loðna ekki verið eins hrognafull og verðmæt og sú loðna sem íslensku skipin hafi síðar veitt. „Þegar íslensku skipin byrja að veiða eru það hundrað krónur sem eru í boði. Þetta er það sem sjómennirnir segja okkur og við trúum þeim alveg. Þetta er alltof mikill munur,“ segir Valmundur.

 Sjómennirnir sjálfir semji við útgerðina

„Þeim er réttur pappír og sagt við þá: Hérna er verðið sem þið fáið fyrir þetta,“ segir Valmundur sem játar því að segja megi að í raun sé um frjálsa samninga að ræða. „En yfirleitt er þetta þannig að menn fá bara töflu um borð og svo er sagt við þá að annað hvort fái þeir þetta eða ekki neitt. Mönnum er bara stillt upp við vegg og þeir óttast örugglega í sumum tilfellum um plássið sitt.“

Þar sem laun áhafnarinnar eru tengd við aflaverðmæti er um mikið hagsmunamál að ræða. „Við ætlum að biðja Verðlagsstofu skiptaverðs að kalla eftir upplýsingum um þetta allt saman. Maður vill ekki fullyrða of mikið án þess að sjá þetta svart á hvítu en þetta er það sem sjómennirnir segja okkur,“ segir Valmundur.

Þá segist Valmundur hafa heyrt að einhverjar útgerðir hafi sagst munu bæta sjómönnum þetta upp eftir því hvernig afurðirnar seljast. „Þá fái menn einhvern bónus ef það selst á meira en var gert upp við þá fyrir,“ útskýrir Valmundur. Þessi aðferðafræði sé hins vegar ekki í samræmi við samninga. Aðspurður kveðst Valmundur ekki geta sagt til um hvenær myndin skýrist því tíma taki að kalla eftir pappírum.

„Vonandi sem fyrst því þótt það sé ekki alveg víst grunar okkur miðað við eftirspurnina að það sé búið að selja megnið af þessu,“ segir hann. Loðnuveiðin á vertíðinni að þessu sinni var að sögn Valmundar tæp 70 þúsund tonn auk þess sem norsk skip lönduðu 12 þúsund tonnum hér á landi. Mest af því sé flutt út til Japans. Veiðin hafi gengið vel. „En það er bara þetta að við einhvern veginn sitjum ekki til borðs eins og aðrir þegar kemur að verðinu fyrir sjómanninn,“ segir Valmundur.

Deila: