Fyrsti samningur Breta sem sjálfstætt strandríki

241
Deila:

Bretland hefur gert þríhliða samning um fiskveiðar í Norðursjó við Noreg og Evrópusambandið. Samningurinn nær til nýtingar á sex sameiginlegum fiskistofnum.  Samningurinn snýst um sameiginlega sjálfbæra veiðistjórnun fyrir þorsk, ýsu, kola, lýsu, síld og ufsa. Þetta er í fyrsta sinn sem Bretland kemur að slíkum samningi sem sjálfstætt strandríki.

Bretland stendur einnig í gerð tvíhliða samninga við Evrópusambandið, Færeyjar og Noreg á svæðum, þar sem það á við. Odd Emil Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra Noregs segir að hann sé ánægður með að þessi samningur sé í höfn. Þessi fyrsti þríhliða samningur sé forsenda sjálfbærrar nýtingar.

Leyfilegur afli af fimm af þessum sex tegundum hefur verið ákveðinn í samræmi við tillögur Alþjóða hafrannsóknaráðsins. Þetta þýðir að aflaheimildir fyrir norðursjávarþorsk, kola, ufsa og síld lækka, en hækka í ýsu og lýsu. Samtals er það metið að aflaverðmæti þessara tegunda fyrir Breta sé um 32,6 milljarðar íslenskra króna .

David Duguid, sjávarútvegsráðherra Skotlands, segir að þetta sé í fyrsta sinn í marga áratugi, sem Bretar hafi gert fiskveiðisamning sem sjálfstætt strandríki. Haldið verði áfram að veita sjávarútveginum á Bretlandseyjum stuðning og berjast fyrir hagsmunum hans á alþjóðavettvangi.

 

Deila: