Flutningur á ferskfiski til Bandaríkjanna og Kanada gengur vonum framar

10
Deila:

Fyrir skömmu aðlagaði Eimskip siglingakerfi sitt til að mæta auknum kröfum viðskiptavina í flutningi á ferskum afurðum til Bandaríkjanna og Kanada. Útflytjendur á Íslandi og Færeyjum byrjuðu að reyna fyrir sér með útflutningi á ferskum laxi á síðari hluta síðasta árs og byggt á góðri reynslu er nú orðið um formlega vikulega flutninga að ræða. Gæðaprófanir hafa staðist allan samanburð og gott betur og eru aðilar þegar farnir að skoða dreifingu á staði í meiri fjarlægð frá losunarhöfnum, jafnvel allt til Miami og Los Angeles.

Auk laxins hafa nokkrar prufusendingar með hvítfisk einnig farið vestur um haf og hafa gæðaprófanir komið vel út. Búist er við töluverðri aukningu á hvítfiski í þessari þjónustu Eimskips á næstu misserum.

„Það er ljóst að þær aðlaganir sem við gerðum á siglingakerfinu okkar varðandi útflutning á ferskum afurðum eru nú þegar að skila sér í verðmætum til viðskiptavina okkar, bæði í auknu verðmæti vörunnar og sem nýr og umhverfisvænni valkostur í ferskflutningi á þetta fjarlægan markað. Við erum stolt af því að vera leiðandi í ferskvöruflutningum en það er okkur ekki síður mikilvægt að geta einnig verið leiðandi á sviði umhverfisvænni flutninga þar sem sá þáttur er að verða sífellt mikilvægari í huga viðskiptavina okkar“, segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips.

 

 

Deila: