Þorskurinn allur kominn inn fyrir línu

95
Deila:

,,Markmiðið hjá okkur var aðallega að leita að ufsa og þorski í veiðanlegu magni. Það gekk upp með ufsann en þorskurinn er allur kominn inn fyrir línu og sennilega allt upp í fjörur og byrjaður að hrygna þar,” sagði Magnús Kristjánsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Akurey AK í samtali á heimasíðu Brims. Skipið er nú í höfn í Reykjavík. Heildaraflinn í veiðiferðinni var um 130 tonn.
Magnús segir að veiðiferðin hafi hafist á Eldeyjarbankanum en þar hafi lítið veiðst.
,,Við færðum okkur því yfir á Selvogsbankann. Þar var mokveiði á ýsu en þorskurinn sást ekki á togaraslóð. Næst var ferðinni heitið á Fjöllin. Þar var að vanda nóg af gullkarfa en við fundum líka töluvert af ufsa og heilt yfir var afinn mjög góður,” segir Magnús en hann segist ekki eiga von á því að þorskveiðin glæðist suðvestanlands fyrr en að aflokinni hrygningu. Þorskurinn hafi alls staðar gengið upp að ströndinni til hrygningar. Allur þorskur sé t.a.m. horfinn úr Jökuldýpi þar sem var góð veiði fyrir skömmu.
Akurey heldur aftur til veiða í kvöld en fyrst þarf áhöfnin að taka nýjan togvír um borð.

 

Deila: