Frumvarp um auknar heimildir Fiskistofu

10
Deila:

Fiskistofa fær heimildir til að kalla eftir upplýsingum frá útgerðum og opinberum stofnunum til að ganga úr skugga um hvort einstök fyrirtæki eða tengdir aðilar séu komnir yfir leyfilega hámarkshlutdeild í kvóta. Þetta er meðal breytinga sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, leggur til í frumvarpi um breytingar á ýmsum lögum um fiskveiðistjórn.  Frá þessu er greint á ruv.is

Frumvarpið er svar við harðri gagnrýni Ríkisendurskoðunar sem kom fram á eftirlit Fiskistofu með vigtun, brottkasti og samþjöppun aflaheimilda.
Skýrsluhöfundar komust að þeirri niðurstöðu árið 2018 að Fiskistofu væri ómögulegt að sinna öllu eftirliti sem væri á hennar herðum. Ríkisendurskoðandi sagði þá að ef ekki yrði brugðist við yrði „eftirlit með nýtingu auðlinda hafsins og samþjöppun aflaheimilda […] áfram veikburða, óskilvirkt og ekki í samræmi við forsendur og ákvarðanir Alþingis.“

Frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um ýmsar breytingar á lögum um fiskveiðstjórn og eftirlit var birt á vef Alþingis í dag. Samkvæmt því fær Fiskistofa heimildir til að krefjast upplýsinga hvenær sem er frá eigendum og útgerðum fiskiskipa sem hún telur nauðsynlegar til að meta hvort þau séu komin yfir leyfilegt hámark í aflahlutdeild. Að auki fær Fiskistofa heimild til að óska upplýsinga frá Skattinum, fyrirtækjaskrá, Samkeppniseftirlitinu og Þjóðskrá Íslands við eftirlit sitt. Því til viðbótar verða þeir sem kaupa eða selja hlut í útgerð að tilkynna Fiskistofu um kaupin. Fiskistofu verður jafnframt falið að birta upplýsingar um eignarhald 30 stærstu handhafa aflahlutdeildar og krókaaflahlutdeildar á vef sínum.

Meðal þess sem hefur verið deilt um er skilgreining á hverjir teljist tengdir aðilar. Í lagafrumvarpinu er lagt til að miðað verði við raunveruleg yfirráð, sem geti talist vera fyrir hendi þótt svo viðkomandi sé hvorki í meirihluta þegar kemur að hlutafjáreign eða atkvæðisrétti. Horft er til samkeppnislaga við mat á raunverulegum yfirráðum og Fiskistofu falið að meta hvort að raunveruleg yfirráð séu fyrir hendi.

Meðal annarra atriða frumvarpsins má nefna að efla á heimildir Fiskistofu til rafræns eftirlit, kveðið er á um samráð Fiskistofu og Landhelgisgæslu um samráð svo sambærileg brot sem stofnanirnar verða áskynja fái sambærilega afgreiðslu og tryggja á að mál verði ekki rannsökuð á tveimur sviðum samtímis, svo sem hjá Fiskistofu og lögreglu.

 

Deila: