Línuívilnun hefur minnkað um tvo þriðju á fimm árum

10
Deila:

Línuívilnun hefur minnkað um tvo þriðju á síðustu fimm árum. Sjómaður á Hólmavík segir í samtali við ruv.is útgerðinni sinni ekki stætt nema hennar njóti við.

Línuívilnun er tekin úr fimm komma þriggja prósenta potti heildarkvóta hvers fiskveiðiárs, líkt og strandveiðar og grásleppan. Þegar línuívilnunar nýtur við mega línubátar landa tuttugu prósentum meiri fiski án þess að það teljist til kvóta, sem telst til töluverðar búbótar.

Línuívilnun skiptist á tímabil innan fiskveiðiársins og er tekin af þegar heimild hvers tímabils klárast þar til það næsta hefst. Taka átti ívilnunina af með skömmum fyrirvara nú um miðjan mars. Hún var þá sett aftur á nokkrum dögum síðar með því að færa heimild næsta tímabils yfir á það yfirstandandi. Pétur Matthíasson hjá útgerðinni Hlökk á Hólmavík, sem gerir út á landbeitta línu, telur að með þessu sé einungis verið að fresta því óumflýjanlega.

„Eins og lítur út í nýjustu reglugerðarbreytingunni þá er engin línuívilnun í þorski frá júníbyrjun og til ágústloka sem gerir það að verkum að þeir sem eru að gera út á landbeitta línu sjá sér ekki fært að gera út á landbeitta línu við þessar aðstæður,“ segir hann í samtali við ruv.is.

Hlökk gerir út á línu allt árið og þar starfa að jafnaði níu manns. Njóti ívilnunarinnar ekki við sé ómögulegt að halda í störf í landi. Það sé vissulega eðli línuveiðanna að ívilnunin sé sett á og tekin aftur af, en hún hafi minnkað mikið síðustu ár.

„Frá fiskveiðiárinu 2015 til 2016 er línuívilnunin þrjú þúsund og fimm hundruð tonn en fiskveiðiárið 2020 til 21 þá er línuívilnunin tólf hundruð tonn. Þá hefur línuívilnunin á fimm árum verið tekin niður um tvo þriðju,“ segir Pétur.

Þar með minnki sá tími sem hægt sé að stunda línuveiðar sem komi fyrst og fremst niður á smærri útgerðum á landsbyggðinni. Auka þurfi við ívilnunina á ný til þess að geta haldið í störf sem reiði sig á landbeitta línu.

 

Deila: