Mokveiði á grásleppunni

16
Deila:

Mikið tekjutap blasir við grásleppuútgerðinni en verð fyrir grásleppuhrogn hefur hríðfallið frá síðustu vertíð. Á móti hafa veiðiheimildir sjaldan verið meiri og alger mokveiði er hjá þeim bátum sem farnir eru til veiða. Frá þessu er greint á ruv.is

Hefja mátti grásleppuveiðar 23. mars, en fáir fóru til veiða strax í byrjun. Mikil óvissa er um sölu á grásleppuafurðum – kaupendur hafa verið tregir til að gefa upp verð og hve mikið þeir muni kaupa. Þá ætla einhverjir kaupendur ekki að taka við grásleppu í ár.

Verða hjá föstum kaupendum 100 krónum lægra en í fyrra

„En það er komið verð, allavega hjá þessum föstu kaupendum, 130 krónur fyrir kílóið sem er 100 krónum lægra en á síðustu vertíð,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda. „Síðan hefur verið selt aðeins í gegnum markaðina og þar hefur verðið verið aðeins fyrir ofan þetta,“ segir Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

Mokveiði og aflinn kominn yfir 1.200 tonn

Það er alger mokveiði það sem af er vertíðinni. 103 bátar höfðu landað 13. apríl og er aflinn kominn yfir 1.200 tonn. Og það er nægur kvóti, en veiða má 9.000 tonn á vertíðinni sem er 74% aukning milli ára.

Einhverjir fari ekkert á grásleppu í ár

En þó nú sé svipaður fjöldi báta farinn til grásleppuveiða og á sama tíma í fyrra segir Örn ljóst að einhverjir ætli ekki taka þátt í vertíðinni. Verðið sé það lágt að sjómenn telji sig ekki hafa neinn hag af því að veiða grásleppu. „Og þeir líta þá kannski til vertíðarinnar á næsta ári og þá verði kannski meiri eftirspurn. En aðrir hugsa þetta kannski aðeins öðruvísi og hugsa sem svo að þeir geti kannski tekið þetta á magninu og haft þokkalegar tekjur. Þannig að þetta er alveg hreint pólanna á milli í skoðunum.“

Ástæða til að koma til móts við sjómenn

Örn segir að LS hafi vakið athygli sjávarútvegsráðherra á því fyrir nokkrum vikum að það væri ástæða til þess að koma einhvern veginn til móts við grásleppuútgerðina. „Því það er náttúrulega óhemju tekjutap að verð hefur lækkað um 200 krónur á tveimur árum. Það mætti því skoða það, með tilliti til þess, að reyna að stækka markaðinn og setja einhvern pening í markaðsmál.“

 

Deila: