Enn lækkar verð á íslenskum sjávarafurðum

100
Deila:

„Verð íslenskra sjávarafurða mælt í erlendri mynt lækkaði um 1,9% á fyrsta fjórðungi ársins borið saman við fjórðunginn á undan. Þetta er fjórða skiptið í röð sem verð sjávarafurða lækkar milli samliggjandi fjórðunga. Fara þarf um tvö ár aftur í tímann, eða til til fjórða ársfjórðungs 2018, til að finna lægra verð á sjávarafurðum.“ Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbanka Íslands. Þar segir meðal annars:

„Verð sjávarafurða náði hámarki á fyrsta fjórðungi síðasta árs, eða rétt áður en faraldurinn skall á af fullum þunga. Síðan hefur verðið lækkað um tæplega 9%. Á þessu tímabili hefur verð botnfisksafurða lækkað um 9,8% en um 3,4% á uppsjávarafurðum. Það sem hefur þó unnið með tekjustreymi íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á þessu tímabili er að krónan var 7,3% veikari á fyrsta fjórðungi í ár en á sama tímabili í fyrra. Samanlögð áhrif veikingar krónunnar og lækkunar afurðaverðs milli þessara tímabila á tekjur sjávarútvegsins eru þó neikvæð um 2,1%.

Lækkunarhrinan hófst þegar faraldurinn braust út

Þessi verðlækkunarhrina hófst á öðrum fjórðungi síðasta árs. Þá lækkaði verðið töluvert mikið, eða um 5,2%, og má rekja þá lækkun til þeirra aðstæðna sem komu upp vegna faraldursins, s.s. þrýstings kaupenda á verðlækkanir. Lækkunin á þeim fjórðungi var sú mesta í mælingum Hagstofunnar en tölur hennar ná aftur til ársins 2010. Næstmesta lækkunin var á fjórða ársfjórðungi 2012, 5%. Síðan á öðrum fjórðungi síðasta árs hafa lækkanirnar verið töluvert minni og hafa legið á bilinu 1,4-1,9%. Lækkanir síðustu fjórðunga skýrast þó ýmist af lækkun á annars vegar botnfiski og hins vegar uppsjávarfiski. Á öðrum fjórðungi á síðasta ári var lækkunin mest afdráttarlaus en þá lækkaði verð bæði á botnfiski og uppsjávarfiski. Á síðustu fjórðungum hefur það hins vegar verið þannig að ef verð á uppsjávarfiski hefur hækkað hefur verð á botnfiski lækkað og svo öfugt. Heildaráhrifin hafa þó verið til lækkunar.

Heimsmarksverð matvæla hefur hækkað mikið en kjöt og íslenskur botnfiskur hefur setið eftir Heimsmarkaðsverð matvæla lækkaði verulega þegar faraldurinn braust út. Þannig lækkaði það um tæplega 7% á milli fyrsta og annars ársfjórðungs í fyrra. Það byrjaði síðan að hækka aftur á þriðja fjórðungi og er nú orðið rúmlega fimmtungi hærra en það var áður en faraldurinn braust út. Heimsmarkaðsverð á kjöti lækkaði einnig verulega á öðrum fjórðungi og hélt áfram að lækka á þeim þriðja. Síðan hefur það hækkað en var á fyrsta fjórðungi þessa árs enn 3% lægra en fyrir faraldur. Botnfiskur frá Íslandi hefur lækkað nærri því stöðugt frá og með öðrum fjórðungi síðasta árs. Fyrir utan örlitla hækkun á fjórða fjórðungi hefur verðið lækkað að meðaltali um 3,5% milli fjórðunga. Verð á botnfiski er tæplega 10% lægra en það var fyrir faraldurinn.“

Deila: