Kauphallarbjallan hljómaði um borð í Berki II í Norðfjarðarhöfn

121
Deila:

Gunnþór B. Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar hringdi inn fyrstu kauphallarviðskiptin með hlutabréf Síldarvinnslunnar í gærmorgun. Efnt var til athafnar um borð í Berki II NK í Norðfjarðarhöfn í tilefni af því að bréf fyrirtækisins voru tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland. Bjalla kauphallarinnar hafði verið flutt austur og hljómaði vel. Ljóst má vera að þessi dagur, 27. maí 2021, er tímamótadagur í sögu Síldarvinnslunnar.

„Þegar bjöllunni hafði verið hringt bauð Magnús Harðarson forstjóri Nasdaq Iceland Síldarvinnsluna velkomna á Aðalmarkaðinn og síðan hélt Gunnþór B. Ingvason ræðu þar sem hann þakkaði starfsfólki Síldarvinnslunnar fyrir alla þá vinnu sem það hafði lagt fram við undirbúning þess að fyrirtækið færi á markað og jafnframt þakkaði hann Landsbankanum sem veitt hafði ráðgjöf við allt undirbúningsferlið og lögfræðingum og endurskoðendum sem einnig höfðu komið að þeirri vinnu,“ segir í frétt frá Síldarvinnslunni.

Deila: