Enn slá Norðmenn útflutningsmet

99
Deila:

Norðmenn fluttu út sjávarafurðir fyrir 9,5 milljarða norska króna í júlí. Það svarar til 135 milljarða íslenskra króna. Það aukning um 21% miðað við sama mánuði í fyrra. Nýliðinn júlí er fyrir vikið bestur allra júlímánaða í útflutningi sjávarafurða frá Noregi. Það er eldislaxinn sem dregur vagninn, en verulega aukning hefur einnig orðið í útflutningi á snjókrabba og kóngakrabba.

Það sem af er árinu hefur útflutningur Norðmanna skilað þeim 998 milljörðum íslenskra króna, sem er um 9% vöxtur miðað við sama tíma í fyrra. Ein skýringanna á góðum júlímánuði er sú, að þrátt fyrir áframhaldandi heimsfaraldur, hefur aðgangur að mörkuðum og flutningaleiðum verið mun greiðari nú en á sama tíma í fyrra.

Útflutningur á eldislaxi í júlí nam 103.100 tonnum að verðmæti 98 milljarðar íslenskra króna. Það er vöxtur um 10% í magni og 24% í verðmæti. Helstu markaðir fyrir laxinn eru í Póllandi, Danmörku og Frakklandi. Af urriða fóru 6.200 tonn utan að verðmæti 5,4 milljarðar íslenskra króna. Það 13% aukning í magni , en verðmætið jókst um 11% Urriðinn fer mest til Hvíta Rússlands, Úkraínu og Tælands.

2.300 tonn af ferskum þorski fóru utan í júlí. Verðmæti var 1,3 milljarðar íslenskra króna. Magnið jókst um 26% en verðmætið um 10%. Stærstu markaðirnir eru Danmörk, Þýskaland og Svíþjóð.

Sala á frystum þorski nam 5.000 tonnum að verðmæti 2,7 milljarðar króna. Það 14% samdráttur í magni og 19% í verðmæti. Frysti þorskurinn fer mest til Kína, Bretlands og Hollands.

Af þurrkuðum saltfiski fóru utan 6.300 tonn að verðmæti 4,4 milljarðar íslenskra króna. Það er vöxtur upp á 39% í magni og 37% í vermæti miðað við júlí í fyrra. Þessi fiskur fer mest til Portúgal, Brasilíu og Kongó. Mikil aukning varð á útflutningi til Afríku, eða úr 606 tonnum í júlí í fyrr í 1.177 tonn nú. Þar er mest um ufsa að ræða.

Norðmenn fluttu utan 1.100 tonn af blautverkuðum saltfiski að verðmæti 893 milljónir íslenskra króna. Það er vöxtur um 27% í magni og 40% í verðmæti. Þess fiskur fer mest til Portúgal, Ítalíu og Grikklands.

Þá nam útflutningur á skreið 246 tonnum að verðmæti 510 milljónir íslenskra króna. Það var aukning um 18% í magni er verðmæti var svipað og í júlí í fyrra.

Af öðrum afurðum má nefna að síldarsala er á svipuðum nótum og í fyrra. Umtalsverð aukning varð í útflutningi á makríl, eða um 54% mælt í magni.

Deila: