Blængur með fullfermi

102
Deila:

Frystitogarinn Blængur NK kom til hafnar í Neskaupstað í byrjun vikunnar að aflokinni 39 daga veiðiferð. Skipið var með fullfermi, 813 tonn upp úr sjó eða 23.000 kassa. Verðmæti aflans er um 270 milljónir króna. Meira en helmingur aflans var ufsi eða 416 tonn, en karfi var 176 tonn, þorskur 132 tonn og grálúða 52 tonn.

Theodór Haraldsson skipstjóri segir í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar, að einstök veðurblíða hafi einkennt veiðiferðina. „Í sannleika sagt var veðrið með ólíkindum allan túrinn. Það var blankalogn nánast hvern einasta dag. Þetta var alveg ótrúlegt. Við byrjuðum túrinn í grálúðu fyrir austan með litlum árangri. Þegar við höfðum verið þar í þrjá daga keyrðum við í ufsafréttir vestur á Hala. Við vorum síðan að mestu í ufsaveiði á Halanum og þar var veiðin góð. Við veiddum einfaldlega það sem vinnslan um borð réði við. Það var skroppið á Hampiðjutorgið og nokkur lúðuhol tekin en rétt eins og fyrir austan var árangurinn ekki merkilegur. Í sannleika sagt var þetta tíðindalítil veiðiferð en höfuðeinkenni hennar voru gott veður og góð veiði. Þetta var bara eins og best verður á kosið,“ segir Theodór.

Gert er ráð fyrir að Blængur haldi til veiða á ný um hádegi í dag.
Myndin: Einn kemur þá annar fer. Blængur NK kemur til hafnar og Vilhelm Þorsteinsson EA heldur til veiða að lokinni makríllöndun. Ljósm. Grétar Örn Sigfinnsson

Deila: