Eins þægilegt og það getur verið

121
Deila:

Þessa dagana er samfelld síldarvinnsla í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Skipin afla vel og stoppa stutt á miðunum. Beitir NK kom með 1.540 tonn sl. mánudag og í kjölfar hans var landað um 600 tonnum úr Bjarna Ólafssyni AK. Börkur NK kom síðan í morgun með 650 tonn eftir stutta veiðiferð.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóra á Berki, og spurði fyrst hvar síldin hefði fengist. „Við vorum grunnt út af Héraðsflóanum, rétt utan við 12 mílurnar. Það var farið út í gær og tekin tvö hol. Við fengum 266 tonn í fyrra holinu og 390 í því síðara. Þetta er eins þægilegt og það getur verið en þó var bölvuð kvika núna – það er víst komið haust. Það er afar gott að eiga við þetta á meðan síldin heldur sig þarna og hún hefur gert það á þessum árstíma síðustu árin. Við vorum bara þrjá og hálfan tíma að sigla í land þannig að hráefnið er eins ferskt og hugsast getur. Síldin er stór og falleg, 380-390 gr. meðalvigt og auk þess er hún næstum átulaus. Í fiskiðjuverinu eru unnin 35-40 tonn á klukkustund þannig að gera má ráð fyrir að það taki 16-18 tíma að landa þessum afla sem við komum með núna,“ segir Hálfdan.
Á myndinni er Börkur NK að landa síld. Ljósm. Smári Geirsson

Deila: