Brúarfossi gefið nafn í Færeyjum

117
Deila:

Brúarfossi, nýju gámaskipi Eimskips var gefið nafn með formlegum hætti á sunnudaginn var. Athöfnin fór fram á Skansabryggjunni nýju í Þórshöfn höfuðstað Færeyja sem er heimahöfn skipsins.

Brúarfoss, sem var smíðaður í Kína, hefur verið í notkun í næstum ár en vegna kórónuveirufaraldursins var formlegri nafngjöf slegið á frest þar til 26. september síðastliðinn. Frá þessu er greint á vefnum local.fo. og ruv.is

Nokkuð fjölmenni var viðstatt athöfnina, þeirra á meðal Heðin Mortensen bæjarstjóri Þórshafnar sem fagnaði áfanganum í ávarpi. Eva Rein, sem starfað hefur um 50 ára skeið hjá færeyska skipafélaginu Faroe Ship dótturfélagi Eimskipa, gaf skipinu nafn. 

Það gerði hún með þeim hefðbundna hætti að brjóta kampavínsflösku á stefni þess. Nýi Brúarfoss er sá sjötti í röð skipa sem bera það nafn og ber 2.150 gáma, er 180 metra langur og 31 metri á breidd.

Hann siglir með vörur milli Íslands, Grænlands, Danmerkur, Svíþjóðar og Færeyja. Fyrsti Brúarfossinn var tekinn í notkun 1927 og sigldi undir merkjum Eimskips í þrjátíu ár.

Deila: