Verkfall fyrir loðnuvertíð?

97
Deila:

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins, segir að hljóðið sé farið að þyngjast í sjómönnum og næstu skref í kjaradeilu þeirra verði rædd næstu tvo daga á þingi sambandsins. Ef sjómenn samþykki verkfall gæti það orðið í byrjun næsta árs. Sjómannasambandið sleit viðræðum við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hjá ríkissáttasemjara í september. Rætt er við Valmund á ruv.is í dag.

„Við erum búin að vera samningslaus í næstum tvö ár eða með útrunninn kjarasamning. Sumir segja að tvö ár sé ekki neitt, þetta var sex ár síðast en þetta er óþolandi ástand að hafa þetta svona,“ segir Valmundur á Morgunvaktinni á Rás1.

Deilunni var vísað til sáttasemjara í febrúar. „Það var góður gangur í þessu þannig en svo kom krafa sem við gátum ekki sætt okkur við og við slitum þessu. Við áttum að fara að greiða fyrir það sem allir aðrir hafa fengið, lífeyrissjóðinn 3,5 prósentið í viðbót. Við áttum að greiða fyrir það með því að taka þátt í að greiða auðlindagjöld með útgerðinni. Sem er náttúrlega bara skattur á útgerðina sem er okkur óviðkomandi.“

Kemur til greina að fara í verkfall fyrir loðnuvertíð

Þá vildi SFS að sjómenn greiddu stærstan hluti trygginga fyrir sjómenn. „Sem eru að vissu leyti mjög dýrar ég veit það. En við greiðum samt hluta af þeim sjálfir núna, þeir vilja fá meira þar, þegar þetta er allt saman talið og meira til erum við byrjuð að greiða fyrir þrjú og hálfa prósentið heldur en það kostar. við gátum ekki haldið áfram á þessum nótum.“

Hvaða möguleikar eru í stöðunni? „Sjómenn verða að svara því. Við höfum ekkert annað en verkfallsvopnið. Sumir segja að það sé að koma loðnuvertíð og að við eigum að skella í lás og fara í verkfall. En sjómenn verða að ráða því hvernig það er. Lengi skal manninn reyna og hver veit nema við náum samningum.“

Tónninn að þyngjast

Valmundur segist ekki þora að fullyrða um hvort lagt verði til á þingi Sjómannasambandsins að farið verði í verkfall. „Mér heyrist tónninn vera að þyngjast í sjómönnum og menn eru tilbúnir að fara að gera eitthvað ef ekkert gengur í næstu vikum eða mánuðum.“ Það þýðir segir Valmundur að það gæti komið til verkfalls í byrjun næsta árs, janúar eða febrúar.

Deila: