Lax í kókoshnetumjólkursósu

177
Deila:

Lax er mikið lostæti, nánast hvernig sem hann er eldaður. Þessi réttur er einfaldur og sérstaklega bragðgóður auk þessa að vera einstaklega hollur. Mikið framboð er af laxi allt árið þökk sé sívaxandi eldi.

Innihald:

1 msk. ólífuolía

800g lax í fjórum jöfnum stykkjum, roð- og beinlaus

1 tsk. sítrónupipar

¼ tsk. salt

Sósan:

6-8 hvítlauksgeirar, flysjaðir

¼ bolli sólþurrkaðir tómatar, saxaðir

120g fersk basilíka, söxuð

1 bolli steinlausar grænar ólífur

½ bolli grænmetissoð

1 bolli kókoshnetumjólk

Aðferðin:

Roðflettið laxinn og skafið fituröndina undir roðinu af. Fjarlægið bein ef þau eru í fiskinum. Kryddið laxinn með sítrónupipar og salti.

Steikið laxinn í snarpheitri olíu, í 4 til 6 mínútur á hvorri hlið.

Færið laxinn af pönnunni og leggið til hliðar. Setjið þá hvítlaukinn á pönnuna og látið geirana krauma uns þeir eru orðnir fallega gylltir, bætið þá tómötunum, ólífunum og basilíkunni út í ásamt soðinu. Lækkið hitann og látið krauma smá stund.Bætið þá kókoshnetumjólkinni út í og látið suðuna koma upp. Færið laxabitana út á pönnuna og látið þá hitna í sósunni.  Færið laxinn upp á fjóra diska og jafnið sósunni yfir. Berið fram með soðnum kartöflum og fersku salati að eigin vali.

Deila: