30 ár frá strandi Eldhamars

171
Deila:

Í dag eru 30 ár síðan togbáturinn Eldhamar fórst við Grindavík. Fimm af sex manna áhöfn fórust þetta örlagaríka kvöld. Einn komst lífs af. Kristín María Birgisdóttir, upplýsinga- og markaðsfulltrúi, Grindavíkurbæjar, minnist þessa sorgaratburðar í færslu sinni á Facebook með eftirfarandi hætti:

 „Ég man föstudagskvöldið 22. nóvember 1991 eins og það hafi verið í gær. Pabbi var á sjó og mamma var búin að græja sig fína því bróðir hennar var að halda upp á 40 ára afmælið sitt á Sjómannastofunni Vör, en hann átti afmæli 20. nóvember. Ég man að ég stóð og hlustaði á mömmu tala í símann. Hún var mikið að ræða björgunarbáta og hvort menn kæmust í bátana.

Strand Eldhamars GK 13 átti sér stað um kl. 20:00, en bróðir mömmu, sem var að halda upp á afmælið sitt þetta kvöld, var eigandi skipsins. Veitingarnar sem voru klárar fyrir gestina og áhöfnina sem beðið var eftir, enduðu sem orkugjafi þreyttra björgunarsveitarmanna.

Af einhverri ástæðu (líklega þeirri að liðin eru 30 ár) langaði mig að taka saman smá myndband… söguskýringu… minningu um þá sem létu lífið í öldurótinu þetta kvöld og sorg þeirra ástvina sem þurftu að læra að lifa með henni. Börnin átta sem ólust upp án föður síns.

Ég þekkti Árna Bernharð skipstjóra þegar ég var barn, en hann bjó hér á Dalbrautinni, á efri hæðinni sem við búum núna og var nágranni okkar í nokkur ár. Pabbi hefur svo oft sagt sögur af honum, hversu yndislegur, ljúfur og barngóður hann var. Og ég man tímann þegar ég var lítið 3-4 ára stelpuskott, alltaf í heimsókn hjá Erlu og Árna, þau með Sigurpál nýfæddan og ég að fara mér að voða með því að kreista kaktusa í glugganum hjá þeim ❤

Eldhamars-slysið var mikill harmleikur og áfall fyrir bæjarfélagið Grindavík. Minningin um Árna, Bjarna, Sigurð, Hilmar og Kristján lifir áfram.“

Þórunn Halldóra Ólafsdóttir bætti við eftirfarandi texta við færsluna:

„Kristín María Birgisdóttir tók saman þetta minningarmyndband um þennan örlagaríka dag þegar fimm ungir sjómenn í blóma lífsins létust í sjóslysi, langt fyrir aldur fram. Foreldrar mínir áttu bátinn og þetta kvöld voru allir á leið 40 ára afmæli pabba en svo gerðist þetta hörmulega slys sem snerti líf svo ótal margra, sérstaklega ungu barnanna sem misstu föður sinn þennan dag og ungu mæðra þeirra ❤️Ég man hvernig dagarnir á eftir liðu og hversu mikið slysið tók á foreldra mína. Í dag hefðu allir fengið áfallahjálp en fyrir 30 árum síðan var hún ekki til. Sorg foreldra minna var mikil og ég held þau hafi ekki mætt þeim skilningi sem þau hefðu þurft né fengið útrás fyrir þeirri sorg því það var einhvern veginn ekki “réttur þeirra” sem skipseigendur í samanburði við það mikla skarð sem þarna var hoggið í líf svo margra þetta örlagaríka kvöld. Blessuð sé minning ungu sjómannanna, minning þeirra lifir“ ❤️

https://www.facebook.com/kmaria1

Deila: