Færeyjar og Grænland semja um fiskveiðar

161
Deila:

Færeyjar og Grænland hafa undirritað tvíhliða samning um fiskveiðar á árinu 2022. Samningar síðustu ára hafa falið í sér aukin skipti aflaheimilda, sérstaklega á þessu ári. Samningurinn fyrir næsta ár er á mjög svipuðum nótum og samningur þessa árs. Eina breytingin nú er sú að heimildir Grænlendinga til að taka eigin kolmunnakvóta innan lögsögu Færeyja lækka um 1.000 tonn.

Samkvæmt samningum munu færeysk skip fá heimildir til veiða á 2.500 tonnum af þorski innan lögsögu Grænlands. Keilukvótinn verður 475 tonn og Færeyingar fá að veiða225 tonn af grálúðu vi Austur-Grænland og 100 tonn við Vestur-Grænland. Þá fá Færeyingar leyfi til tilraunaveiða á 500 tonnum af krabba við Austur-Grænland. Einnig verður opinn möguleiki á því að færeysk skip fái tækifæri til að taka þátt í tilraunaveiðum á þorski og öðrum botnfiski og botndýrum við Austur-Grænland.

Grænland fær heimildir til að veiða 6.500 tonn af norsk-íslenskri síld og 14.700 tonn af kolmunna innan lögsögu Færeyja. Jafnframt fá Grænlendingar heimildir til að veiða 4.076 tonn af eigin kolmunnakvóta innan lögsögu Færeyja. Það er 1.000 tonnum minna enn í fyrra.

Þá stefna löndin að því að koma á nýjum samningi um tölvutækar upplýsingar um veiðarnar. Færeyja hafa gert slíka samninga við Ísland, Noreg og Rússland.

Deila: