Kröftug verðhækkun á botnfiski á þriðja ársfjórðungi

164
Deila:

„Verð íslenskra sjávarafurða mælt í erlendri mynt hækkaði um 3,1% á þriðja ársfjórðungi borið saman við fjórðunginn á undan samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands. Þetta er annar fjórðungurinn í röð sem verðið hækkar milli fjórðunga. Verðið lækkaði verulega þegar faraldurinn skall á og náði ákveðnu lágmarki á fyrsta fjórðungi þessa árs. Verðið hafði hækkað nokkuð hratt síðustu fjórðungana áður en faraldurinn skall á og náði hámarki á fyrsta fjórðungi 2020. Enn vantar 3,5% upp á að verðið í dag nái því hámarki.“ Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans. Þar segir ennfremur:

„Verðhækkunin skýrist einungis af hækkun botnfisks en verð á uppsjávarfiski lækkaði. Verð á botnfiski hækkaði um 5,9% milli fjórðunga en verðið á uppsjávarfiski lækkaði um 11%. Þessi verðhækkun á botnfiski var kröftug en svo mikil hækkun hefur ekki mælst síðan á fjórða ársfjórðungi 2007. Verð á botnfiski vantar nú 3,3% upp á að ná sínu fyrra hámarki á fyrsta fjórðungi 2020. Verðlækkunin á uppsjávarfiski var einnig verulega kröftug en svo brött lækkun hefur ekki mælst síðan á fyrsta fjórðungi 2008 en þá var lækkunin einnig 11%. Það eru mun minni verðsveiflur í botnfiskverði en verði uppsjávartegunda.

Mikil hækkun á ferskum þorskafurðum

Þorskurinn er langmikilvægasta útflutningsvara íslensks sjávarútvegs og þess vegna hefur verðþróun í þorski töluvert mikil áhrif á verðþróun á öllum þeim botnfiski sem fluttur er frá landinu. Nú á þriðja fjórðungi varð methækkun í verði á ferskum þorski mælt í erlendri mynt. Þannig mældist 15,4% hækkun sem skýrist væntanlega einkum af aukinni eftirspurn frá erlendum veitingahúsum sem eru óðum að vakna til lífs á ný eftir skerta starfsemi vegna faraldursins. Verð á landfrystum þorski lækkaði aftur á móti um 2,1% og hefur núna lækkað um samtals 10,7% á síðustu tveimur fjórðungum. Verð á söltuðum þorski hækkaði lítillega, eða um 0,1%. Verðþróun á þessum þremur afurðategundum hefur verið æði misjöfn frá því fyrir faraldur. Þannig var verð á ferskum þorski 17% hærra nú á þriðja fjórðungi en á fyrsta fjórðungi síðasta árs. Verð á bæði landfrystum þorski og söltuðum var hins vegar töluvert lægra á þriðja fjórðungi en á fyrsta fjórðungi síðasta árs. Verðið var 3,2% lægra á landfrystum afurðum en 10,4% á söltuðum. Þessi hækkun á ferskum þorski nú er í ágætu samræmi við þróun síðustu ára sem hefur einkennst af mun meiri verðhækkun á ferskum þorskafurðum en frystum eða söltuðum.

Heimsmarksverð kjöts hefur jafnað sig en verð á íslenskum botnfiski er enn lágt

Heimsmarkaðsverð flestra hrávara lækkaði verulega þegar faraldurinn braust út. Það átti einnig við um heimsmarkaðsverð matvæla sem lækkaði um tæplega 7% á milli fyrsta og annars ársfjórðungs í fyrra. Verð byrjaði síðan að hækka aftur á þriðja fjórðungi og var um 29% hærra en það var áður en faraldurinn hófst. Heimsmarkaðsverð á kjöti lækkaði einnig á öðrum fjórðungi í fyrra og hélt áfram að lækka á þeim þriðja. Síðan hefur það hækkað en var á þriðja fjórðungi þessa árs 12% hærra en fyrir faraldur. Þrátt fyrir þessar verðhækkanir á botnfiski frá Íslandi á öðrum og þriðja fjórðungi er verðið á honum enn lægra en það var á fyrsta fjórðungi í fyrra.“

Deila: