Masilik komið til Hafnarfjarðar

170
Deila:

Grænlenska fiskiskipið Masilik er komið í Hafnarfjarðarhöfn eftir að hafa strandað við Vatnsleysuströnd um kvöldmatarleytið í gærkvöldi, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni.

Varðskipið Freyja dró skipið til hafnar eftir að hafa leyst það af strandstað í nótt og gengu aðgerðir áfallalaust fyrir sig.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar lofaði samstarfið við björgunarsveitir á strandstað í nótt og ekkert tjón varð á fólki þegar skipið varð strand.

Freyja var nýkomin til Hafnarfjarðar með skip sem hún dró frá Norðurlandi þegar Masilik strandaði og var því stutt fyrir varðskipið og áhöfn þess að fara að aðstoða áhöfnina á Masilik.

Jafnframt voru þyrla, dráttarbátur og björgunarsveit send á staðinn. Grunur kviknaði undir miðnætti um að leki væri kominn að Masilik og því var stærstur hluti áhafnarinnar fluttur yfir í Freyju og þaðan í land. Við nánari athugun kom í ljós að enginn leki var kominn að skipinu. 
Frétt og mynd af ruv.is

Deila: