Laxadauðinn ekki Arctic Fish að kenna

Deila:

Matvælastofnun telur að stórfelldur laxadauði í kvíum Arctic Fish í Dýrafirði í upphafi árs hafi ekki verið fyrirtækinu að kenna. Margir utanaðkomandi og samhangandi þættir hafi valdið því að tvö þúsund og fimm hundruð tonna afföll urðu í firðinum.

Þetta kemur fram á vef Matvælastofnunar. Arctic Fish tilkynnti fyrst um aukin afföll nítjánda janúar. Þá voru þau ekki mikil, um núll komma tuttugu og fimm prósent. Tíu þúsund tonn af laxi voru í firðinum. Í ljós kom að ástand tálkna var slæmt og mikið um hjarta- og vöðvabólgu í fiskinum. Laxinn var fluttur á milli kvía í fyrrasumar og lúsameðhöndlaður í desember og hvort tveggja gerði hann viðkvæman. 

Matvælastofnun nefnir einnig takmarkaða sláturgetu. Sláturhús Arnarlax á Bíldudal, sem er það eina á Vestfjörðum, hélt ekki í við aukna framleiðslu og COVID-19 gerði illt verra. Ekki náðist að slátra laxinum í árslok og hann var því lengur í kvíum en hann átti að vera. Veiklulegt ástand hans og síendurtekin óveður bættu gráu ofan á svart og því fór sem fór.
 
Matvælastofnun segir að háttsemi fyrirtækisins sé ekki um að kenna. Fyrrtaldir þættir hafi valdið afföllum upp á tvö þúsund og fimm hundruð tonn sem er fjórðungur alls lax sem var í firðinum. Tap Arctic Fish vegna þessa er talið vera meira en milljarður króna. 
Frétt af ruv.is

Deila: