Erindi um rannsóknir og vöktun selastofna

Deila:

Fimmtudaginn 19. maí kl. 12:30 verður málstofa Hafrannsóknastofnunar haldin í fundarsal á 1. hæð að Fornubúðum 5 í Hafnarfirði.

Sandra Magdalena Granquist flytur erindið: Rannsóknir og vöktun selastofna við Ísland: Samantekt af nýlegum rannsóknaverkefnum, ásamt þýðingu þeirra fyrir selastofna og samfélag.

Fyrirlesturinn verður á ensku. The lecture will be in English.

Erindi verður streymt á YouTube rás Hafrannsóknastofnunar,
https://www.youtube.com/channel/UCirTCP_aKFKz8LMoFoxWGbA

Ágrip
Tvær selategundir kæpa við Íslandsstrendur; útselur og landselur og því hafa selarannsóknir við Ísland beinst að þeim stofnum. Mikill fækkun hefur átt sér stað í báðum stofnum síðan talningar hófust á áttunda áratugnum. Báðar selategundirnar eru í dag á válista íslenskra spendýra. Samhliða fækkun á sér stað mikil bein og óbein samskipti sela og manna sem gætu haft neikvæð áhrif á selastofnana, m.a. vegna fiskveiða (nytjaveiðar í sjó og laxveiði í ám) og nýlega vegna uppbyggingar ferðaþjónustu og selaskoðunar.

Í ljósi þessa hefur verið nauðsynlegt að rannsaka betur vistfræði sela við íslenskar aðstæður þ.e. áhrif mannsins á selastofna ásamt hugsanlegum áhrifum sela á athafnir mannsins.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um helstu rannsóknaverkefni varðandi vistfræði sela; niðurstöður kynntar og þýðing slíkra rannsókna fyrir selastofna við strendur landsins kynnt. Fjallað verður um stöðu selastofna og breytingar á stofnstærð frá því að talningar hófust 1980. Þá verður einnig fjallað um rannsóknir á fæðuvali sela og samspili sela við nytjaveiðar manna. Einnig verður fjallað um áhrif ferðamennsku á seli og hvernig hægt er að lágmarka neikvæð áhrif vegna truflana af mannavöldum.

Um Söndru
Sandra er sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun frá 2008 og deildarstjóri Selarannsóknadeildar Selasetur Íslands. Sandra er með doktorsgráðu í vistfræði og dýraatferlisfræði frá Háskólanum í Stokkhólmi og meistaragráðu í dýraatferlisfræði frá Háskóla Íslands. Hún stýrir vöktun á landsel og útsel við Ísland, og framkvæmir m.a. reglulega flugtalningar og stofnmat fyrir seli. Hún heldur utan um vöktun á fjölda fæddra kópa og ráðgjöf um stjórnun á selastofnum. Sandra stýrir einnig öðrum rannsóknaverkefnum, m.a. um áhrif manna á selastofna vegna fiskveiða og ferðamennsku. Þá rannsakar hún m.a. atferli, útbreiðslu og fæðunám sela.

Deila: