Hnúðlax fjölgar sér í íslenskum ám

Deila:

Í fyrsta sinn er staðfest að hnúðlax hefur fjölgað sér í íslenskum ám. Sýnatökur í Botnsá í Hvalfirði sýna svo ekki verður um villst að hnúðlax er kominn í íslenska náttúru. Áform eru um að skoða laxveiðiár víðar á landinu til að sannreyna hvort hnúðlaxaseiði finnast þar. Frá þessu var greint í eftirfarandi frétt á ruv.is í gær.

Vísindamennirnir hafa fundið hundruð seiða í Botnsá í gær og í dag.Guðni Guðbergsson er sviðsstjóri ferskvatns og eldissviðs Hafrannsóknastofnunar
„Það er búið að staðfesta það að Hnúðlaxinn hefur hrygnt hér í Botnsá. Hrognin hafa klakist út, seiðin hafa lifað af og þau eru nú á leið til sjávar.“

Fyrst varð vart við hnúðlax á Íslandi árið 1960. Frá 2015 hafa æ fleiri laxfiskar af þessari tegund fundist hér. Talið er að fiskurinn hafi komið frá Rússlandi og Norður-Noregi.  Samstarf hefur verið milli íslenskra, breskra og pólskra vísindamanna við rannsóknir á hnúðlaxi hér á landi og víðar.

Verið er að skoða að taka sýni úr fleiri ám til að kanna hvort hnúðlaxaseiði finnast þar. 

„En við veiddum hér líka í gær af því að menn vilja vita hvaða áhrif þetta mögulega hefur og við veiddum sjóbirtingsseiði sem væntanlega eru líka á niðurgöngu. Þau höfðu verið að gæða sér á þessum hnúðlaxaseiðum. Þannig að það eru alla vega einhverjir hér sem að njóta góðs af.“

Þáttur í rannsókninni er að kanna hvað hnúðlaxinn étur og hverjir éta hann. Ekki er vitað hver áhrif þessa nýja laxastofns hér á landi verða á villta stofninn. Hnúðlax er nothæfur til manneldis ef hann er veiddur um leið og hann kemur upp í árnar en er ekki góður til átu nema í skamman tíma. 

 „Mögulega hefur hann áhrif alla vega á ímynd og ég veit að í Noregi hafa menn verið að gera ráðstafanir til að reyna að veiða hnúðlaxa þannig að þeir fari ekki upp í ár. Hins vegar er hnúðlax búinn að vera í rússneskum ám í ansi langan tíma og þeirra skoðun og niðurstöður eru þær að það hefur enginn laxastofn beðið hnekki af komu hnúðlaxins.” 

Michal Skora doktor í fiskeldi segir rannsóknina einnig snúa að því að kanna kosti og galla þess þegar ný fisktegund kemur inn í lífríki landa í Norður-Atlantshafi.

 Michal Skora  doktor í fiskeldi segir ánægjulegt sem vísindamaður að finna seiðin en sem manneskja sem  vill vinna að verndun náttúrunnar  veki það ekki gleði þegar ný tegund sem gæti skaðað náttúrulega fiskistofna birtist.

Deila: