Sushi og saltfiskur

Deila:

Maður vikunnar er vesturbæingur sem vinnur við að selja saltfisk. Fyrstu skrefin í sjávarútvegi voru í sumarafleysingum á skrifstofunni hjá Íslenskum Sjávarafurðum. Hún prjónar, skíðar og spilar golf

 Nafn:                                   

Elísabet Matthildur Richardsdóttir.

 Hvaðan ertu?                   

Vesturbæ Reykjavíkur.

 Fjölskylduhagir?              

Ég á eina dóttur, tvo ömmustráka og kærasta.

 Hvar starfar þú núna?   

Hjá Bacco Seaproducts sem sölustjóri saltfiskafurða.

 Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?              

Ég var í menntaskóla þegar ég hóf störf við sumarafleysingar hjá Íslenskum Sjávarafurðum og hef verið viðriðin útflutning á fiski alla tíð síðan.

 Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?      

Mér finnst alltaf jafn stórkostlegt og jafnframt skemmtilegt að vinna við sölu á saltfiski því saltfiskframleiðsla hefur verið ein okkar mikilvægasta atvinnugrein frá því á 19.öld. Saltfiskframleiðendum hefur þó fækkað gífurlega á síðustu árum en það gerir það þeim mun skemmtilegra að vinna með framleiðendum sem sjá ennþá sjarmann í að framleiða fisk eftir þessari aldagömlu hefð.

 En það erfiðasta?            

Að horfa á eftir öllum þeim óunna fiski sem fluttur er út til vinnslu erlendis.

 Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Ég er alltaf að lenda í einhverjum ævintýrum.

 Hver er eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Þeir eru margir en sá eftirminnilegasti er Sigurður Haraldsson heitinn sem var stór karakter og mikill reynslubolti þegar kom að saltfisksölu- og framleiðslu. Hann kenndi mér mikið og margt á þeim tíma sem við unnum saman.

Hver eru áhugamál þín?

Spila golf, prjóna, skíða og svo allt hitt sem ég tek mér fyrir hendur hverju sinni.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Sushi er sennilega í mestu uppáhaldi en saltfiskurinn er að sjálfsögðu alltaf góður og svo stendur Klausturbleikjan líka fyrir sínu.

Hvert færir þú í draumafríið?

Golfið á hug minn allan þessa dagana svo draumafríið er að fara í flotta golfferð. Annars hlakka ég líka til að þvælast um landið með hjólhýsið okkar í sumar.

Deila: