Ræddi mikilvægi þess að vernda lífríki hafsins

Deila:

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti í gær ávarp á opnunarathöfn Hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem nú fram fer í Lissabon en formennskulönd eru Portúgal og Kenía. Í ávarpinu lýsti forsætisráðherra hve hafið er þýðingarmikið fyrir Ísland og sagði náin tengsl á milli loftslagsmála og málefna hafsins. Hún sagði hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna mikilvægan grundvöll samvinnu og tilkynnti um þátttöku Íslands í metnaðarbandalagi um alþjóðlegan samning um verndun, sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni í hafinu utan lögsögu ríkja (BBNJ).

Forsætisráðherra ræddi í ávarpi sínu um mikilvægi þess að vernda lífríki hafsins og tryggja sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda. Hún sagði að hafið væri hluti af lausninni við fæðuvanda heimsins. Sú pólitíska yfirlýsing sem er til umfjöllunar á Hafráðstefnunni beri glöggt vitni um þau mikilvægu verkefni sem eru framundan.

Forsætisráðherra flutti einnig ávarp á hliðarviðburði Bláfæðubandalagsins svokallaða en Ísland er eitt af forysturíkjum þess. Bandalagið hefur starfað síðan í september í fyrra en var formlega stofnað nú á ráðstefnunni í Lissabon. Markmið bandalagsins er að auka meðvitund um mikilvægi sjálfbærrar fæðuöflunar úr hafi og vötnum en allt að þrír milljarðar manna fá uppistöðu næringar sinnar úr hafinu.

Þá átti forsætisráðherra tvíhliða fundi og samtöl við Abdulla Shahid, forseta allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, Virginijus Sinkevicius, framkvæmdastjóra sjávarútvegs- og umhverfismála í framkvæmdastjórn ESB, José Ulisses Correia e Silva, forsætisráðherra Grænhöfðaeyja, og Audrey Azoulay, framkvæmdastjóra UNESCO.

Þá hittust Katrín Jakobsdóttir og António Costa, forsætisráðherra Portúgal og annar gestgjafa Hafráðstefnunnar, í vinnukvöldverði í gær. Þar ræddu ráðherrarnir tvíhliða samskipti landanna og mikilvægi hafsins og lífríkis þess fyrir bæði lönd. Loftslagsmál og alþjóðamál voru einnig á dagskrá og þá sérstaklega stríðið í Úkraínu.

Deila: