Mikill afli og hátt fiskverð á strandveiðunum

Deila:

Afli strandveiðibáta eftir 30 veiðidaga í sumar er orðinn 7.147 tonn. Þar af er þorskur 6.321 tonn, ufsi 774 tonn og 51 tonn af öðrum tegundum. Þetta er mun meiri afli en á svipuðum tíma í fyrra. Þá var heildaraflinn 5.741 tonn, þar af þorskur 5.377 tonn. Skýringin á mikilli aflaaukningu er mikil fiskigengd, þokkalegar gæftir og fjölgun báta. Nú hafa 668 bátar landað afla, en í fyrra var fjöldinn með löndun 633.

Mestur afli er að vanda á svæði A, enda flestir bátar sem róa á því svæði. Þar hefur 321 bátur landað 4.021 tonni.  Það er rétt um þúsund tonnum meira en á sama tíma i fyrra. Á svæði B hafa 137 bátar landað 1.193 tonnum, sem er um 100 tonnum meira en í fyrra. Aflinn á svæði C er orðinn 714 tonn af 102 bátum. Fjöldi báta er nánast sá sami og aflinn um 70 tonnum meiri. Á svæði D hafa 108 bátar landað 1.218 tonnum. Á sama tíma í fyrra höfðu 146 bátar landað 968 tonnum. Aflinn nú er því 250 tonnum meiri, þó bátarnir sé mun færri.

Það er ekki aðeins að aflinn sé mun meiri á þessu ári, heldur er verðið, sem bátarnir fá fyrir fiskinn miklu hærra en í fyrra. Meðalverð á óslægðum þorski á fiskmörkuðum nú frá upphafi veiða í maí, 400 krónur á kíló. Á sama tíma í fyrra var það 310 krónur á kíló og 245 árið 2020. Verð á ufsa nú er að meðaltali 199 krónur á kíló, en var 102 krónur í fyrra og 65 krónur árið 2020.

Deila: