SVN ræður verkefnastjóra á sviði starfsmannamála

Deila:

Síldarvinnslan hefur ráðið Sigurð Ólafsson í stöðu verkefnastjóra á sviði starfsmannamála. Sigurður er ráðinn í hálft starf og mun hann fylgja eftir innleiðingu á nýrri starfsmannastefnu fyrirtækisins, en hann veitti einmitt ráðgjöf við gerð stefnunnar.

Sigurdur_Olafsson_2017_HE

Sigurður er Norðfirðingur og starfaði töluvert hjá Síldarvinnslunni á yngri árum. Hann var einungis 12 ára gamall þegar hann réðst í sumarstarf í fiskimjölsverksmiðjunni og vann síðan hjá Síldarvinnslunni öll sumur fram að tvítugu, þar af heilt ár í saltfiskverkuninni að loknu stúdentsprófi. Sigurður skrifaði síðan BA – ritgerð í félagsfræði um fyrirtækið þar sem hann gerði samanburðarrannsókn á félagssálrænum áhættuþáttum í ólíkum framleiðsluferlum í fiskvinnslu.

Að loknu háskólanámi á Íslandi hóf Sigurður MA – nám í mannauðsstjórnun við háskólann í Bournemouth á Englandi og hefur frá árinu 2001 starfað að mannauðsmálum. Hann starfaði sem ráðgjafi hjá Skýrr hf., sem sérfræðingur og deildarstjóri íslenskrar starfsmannaþjónustu hjá Varnarliðinu, sem framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Austurlands og síðan sem mannauðssérfræðingur og fræðslustjóri hjá Alcoa – Fjarðaáli á árunum 2005-2012. Síðustu árin hefur Sigurður starfað sjálfstætt sem ráðgjafi, leiðbeinandi og fyrirlesari. Hann hefur á þeim tíma m.a. sinnt umfangsmiklum verkefnum fyrir Alcoa í Saudi Arabíu, þar sem hann kenndi hópi 250 stjórnenda í nýrri súrálsverksmiðju, álveri og völsunarverksmiðju. Sigurður hefur unnið með fjölda fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga að verkefnum sem lúta að stjórnun og mannlegum samskiptum. Hann mun áfram sinna slíkum verkefnum samhliða starfinu hjá Síldarvinnslunni auk þess sem hann vinnur að uppbyggingu fyrirtækisins Lifðu betur ásamt Orra Smárasyni sálfræðingi, en fyrirtækið vinnur að því að gera gagnreyndar aðferðir til að bæta andlega líðan aðgengilegar á netinu.

Hjá Síldarvinnslunni mun Sigurður aðstoða Hákon Ernuson starfsmannastjóra og aðra stjórnendur fyrirtækisins við innleiðingu hinnar nýju starfsmannastefnu, en stefnan er bæði metnaðarfull og framsækin og mun kalla á ýmsar breytingar á vinnubrögðum innan fyrirtækisins. Síldarvinnslan býður Sigurð velkominn til starfa.

 

Deila: